Einstaklega vel heppnaður Stelpugolfdagur Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs

Rétt tæplega 40 konur á öllum aldri nýttu tækifærið á sunnudaginn var þegar Golfklúbbur Fljótsdalshéraðs í samvinnu við Golfsamband Íslands og PGA á Íslandi bauð upp á sérstakan stelpugolfdag á golfvellinum að Ekkjufelli. Þátttakan fór langt fram úr björtustu vonum þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið sem best.

Stelpugolfdagurinn er átak sem GSÍ og PGA Ísland standa fyrir í samvinnu við golfklúbba í landinu og er ætlað að freista þess að heilla fleiri stelpur og konur í íþróttina en töluvert hallar á kvenkynið almennt í golfinu á Íslandi.

Formaður Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs, Friðrik Bjartur Magnússon, segir stöðuna verri austanlands en annars staðar samkvæmt sinni eigin úttekt.

„Ég kíkti á tölfræðina í golfinu almennt fyrir nokkru og mér sýnist almennt að um þriðjungur meðlima í klúbbunum víðast hvar séu kvenkyns. En hér á Austurlandi, hugsanlega með golfklúbbinn í Neskaupstað sem undantekningu, er hlutfallið mun lægra eða undir 20 prósentum. Í því ljósi var ekkert minna en frábært hversu margar konur mættu og fengu kynningu og kennslu, tóku þátt í þrautum auk þess sem boðið var upp á veitingar og gjafir. Það veit sannarlega á gott hve þátttakan var góð og vonandi verður það til að fjölga konunum í golfinu hér og annars staðar.“

Frí kynning og kennsla og fríar veitingar í kjölfarið á Stelpugolfdegi Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs á sunnudaginn. Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með daginn. Mynd GFH

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar