Ekki annað hægt en heillast af sögu Hans Jónatans

Heimildamynd um sögu Hans Jónatans, fyrsta þeldökka einstaklingsins sem mun hafa sest að á Íslandi, verður sýnd á RÚV í kvöld. Handritshöfundurinn segir það hafa eflt tenginguna við sögupersónuna að koma á slóðir hennar á Djúpavogi.

„Það er einna sérstæðast við sögu Hans Jónatans er að hann kemur til landsins árið 1802 og þá hefur enginn neitt við húðlitinn að athuga. Fólk horfir á hann sem vel menntaðan Dana sem kenndi fólki margt og var góður við fátæka.

Það er síðan enn merkilegra að hann hafi fæðst sem þræll. Ég held að enginn annar Íslendingur eigi þann bakgrunn. Þess vegna var ekki annað hægt en heillast af sögu hans.“

Þetta segir Bryndís Kristjánsdóttir sem skrifaði handrit myndarinnar upp úr bók Gísla Pálssonar, mannfræðingsins, um manninn sem stal sjálfum sér. Valdimar Leifsson, kvikmyndagerðarmaður og eiginmaður Bryndísar, framleiddi myndina en Gísli leitaði til þeirra með hugmynd um að gera mynd eftir sögunni.

Frá St. Croix til Djúpavogs

Móðir Hans Jónatans var ambátt af afrískum uppruna á dönsku nýlendueyjunni St. Croix. Hann flutti barnungur til Danmerkur og fór fram á frelsi þegar hann komst á unglingsár. Þegar honum var neitað um það stakk hann af til Íslands og settist að á Djúpavogi. Þar vann hann verslunarstörf í Löngubúð og giftist íslenskri konu, Katrínu Antoníusdóttur.

Í myndinni er meðal annars farið með afkomendum þeirra til St. Croix. „Margir þeirra sem fóru í ferðina höfðu aldrei sést áður,“ segir Bryndís.

Við tökur myndarinnar var einnig farið austur á Djúpavog. „Við fórum nokkrum sinnum þangað og tókum meðal annars upp í Löngubúð, gamla bæjarstæðinu þar sem eru rústir í dag og í kirkjugarðinum á Hálsi þar sem er minningarsteinn.

Það tengdi okkur enn sterkar við þessa sterku sögu að koma á staðina. Maður fær betri tilfinningu fyrir persónunni og sér fólkið frá þessum tíma betur fyrir sér.

Við sviðsettum nokkur atriði úr lífi hans og það dró okkur enn nær persónunni. Sú sem leikur Katrínu, Edda Björnsdóttir, er líka afkomandi þeirra og það dró okkur enn nær.“

Sagan fer víða

Myndin var frumsýnd í Havarí í Berufirði vorið 2017 en hún verður sýnd í fyrsta sinn í sjónvarpi í kvöld. Bókin hefur farið víða enda verið þýdd á ensku, dönsku og frönsku auk þess sem Gísli hefur verið fenginn til að flytja fyrirlestra. Þá hafa bandarískir kvikmyndagerðarmenn sýnt áhuga á að gera leikna mynd út frá sögu Hans Jónatans.

„Sagan er nálægt okkur þótt það séu 200 ár liðin frá henni. Ég held að hún sé rétt að byrja,“ segir Bryndís.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.