Ekki bara Austfirðingar sem óttast faraldur síðar

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir ótta við að bakslag komi í góðan árangur í baráttunni við útbreiðslu covid-19 veirunnar ekki bundinn við þá landshluta sem sloppið hafa best til þessa, svo sem Austurland.

Þetta var meðal þess sem fram kom á upplýsingafundi Almannavarna í dag en þar var Þórólfur spurður út í hvort landshlutar eins og Austurland, þar sem aðeins hafa greinst átta tilfelli til þessa, gætu átt von á skelli síðar. Á fundum í lok mars sagði landlæknir líkur á að faraldurinn yrði síðar á ferð eystra en annars staðar.

Þórólfur sagði Austfirðinga ekki eina um að óttast að faraldurinn gæti enn dunið yfir þá, það næði yfir landið allt. Einmitt þess vegna væri farið hægt í sakirnar við að aflétta samkomubanni. Mikilvægt væri að vinna tíma, bæði til að sjá þróunina annars staðar, sjá virkni nýrra lyfja og jafnvel fá bóluefni. Þórólfur sagðist þó ekki trúaður á bóluefnið yrði að veruleika fljótlega.

Meðal ráðstafana sem grípa á til eru ferðatakmarkanir þannig að allir þeir sem koma hingað til lands fari í tveggja vikna sóttkví. Til þessa hafa aðeins Íslendingar sem eru að snúa heim þurft að gangast undir slíka kvöð.

Reglurnar taka gildi að lokinni auglýsingu ráðherra, en hún verður ekki tilbúin fyrr en ferjan Norræna kemur til Seyðisfjarðar á morgun. Von er á henni um klukkan níu í fyrramálið.

Þetta staðfesti Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á fundinum í dag. Hann sagði þó að flestir þeirra sem kæmu með ferjunni og væru ekki íslenskir væru erlendir verkamenn. Þeir muni fara í sóttkví B, sem felur í sér leyfi til atvinnu á afmörkuðu svæði með skilyrði.

Þessar reglur eiga að gilda til 15. maí, með takmörkunum eins og lýst er í tilfelli verkafólksins um borð í Norrænu. Þegar hafði verið ákveðið að ytri landamæri Schengen-svæðisins yrðu lokuð þar til. Þórólfur sagði að verið væri að skoða til hvaða aðgerða yrði gripið að þá og kvaðst reyndar endurskoða skoðun sína nánast daglega með tilliti til stöðu faraldursins á heimsvísu.

Þórólfur var spurður út í hvort hann teldi rétt að hafa ekki gripið til slíkra aðgerða strax í upphafi faraldursins. „Ég hefði gert það nákvæmlega sama nú. Sú ákvörðun byggðist á nokkrum hlutum. Í fyrsta lagi upplýsingum erlendis frá um að smitið bærist ekki með ferðamönnum heldur íbúum sem verið hefðu erlendis. Við töldum heldur ekki framkvæmanlegt að stöðva fólk af ákveðnu þjóðerni og vonlaust að setja alla í sóttkví. Það hefði verið erfitt að stoppa allar komur til landsins einn, tveir og þrír. Þá var smit ekki algegnt í löndunum í kringum okkur.

Þetta var rétt ákvörðun því eins og við höfum séð hefur smit aðallega borist með Íslendingum. Núna er staðan önnur, við höfum gripið til harðra og íþyngjandi aðgerða. Við höfum náð að stöðva smit innanlands en það er enn algegnt í löndunum í kringum okkur. Því er meiri hætta nú á að smit berist með útlendingum eða Íslendingum sem ferðast erlendis. Við sjáum hvað gerist fram til 15. maí. Það er ekki mikill ferðamannaiðnaður í heiminum í dag.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.