Ekki fannst loðna í síðasta leitarleiðangri

Síðasta loðnuleitarleiðangri lauk í gærkvöldi þegar Polar Amaroq kom til hafnar í Reykjavík eftir rúmlega vikuferð umhverfis landið. Ekkert fannst neitt sem breytir stöðunni í loðnuveiðum.

Tvö skip voru gerð út í þessa síðustu leit, annars vegar Polar sem er í eigu dótturfyrirtækis Síldarvinnslunnar og hins vegar Ásgrímur Halldórsson frá Höfn.

Bæði skipin leituðu úti fyrir Suðurlandi í byrjun síðustu viku. Ásgrímur fór fljótt aftur heim en Polar fór norður fyrir land í leit að vestangöngu, með stoppi í Neskaupstað þar sem veiðarfæri voru tekin um borð í von um að ganga fyndist og hægt yrði að hefja veiðar.

Polar kom aftur til hafnar í gærkvöldi og að sögn Þorsteinn Sigurðssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, án þess að nokkuð fyndist sem breytti fyrri ráðgjöf um að ekki yrði gefinn út loðnukvóti í ár.

Farið verður yfir stöðu mála með loðnuútgerðum síðar í dag og ákveðið hvort reynt verði áfram eða hætt því venjan er að loðnuveiðum ljúki upp úr miðjum apríl.

„Líkurnar verða minni og minni eftir sem líður á en það er ekki hægt að segja annað en allt hafi verið reynt,“ segir Þorsteinn.

Loðna hefur verið veidd sleitulaust við Ísland frá árinu 1963 og skapað mikil verðmæti, bæði fyrir þjóðarbúið en ekki síst fyrir þau samfélög sem gera út á hana. Ljóst er að fyrirtæki, einstaklingar og sveitarfélög þar verða af miklum tekjum.

Þorsteinn segir ekki ljóst hvað valdi hruni loðnunnar nú. Svörin við flestum spurningum vísi til loftslagsbreytinga þótt ekki sé nákvæmlega ljóst á hvaða hluta lífsferils loðnunnar þau hafi mestu áhrifin.

„Við höfum séð merki um það undanfarin ár að stofninn hér við land hafi það ekki of gott. Kvótinn undanfarin fimm ár er þriðjungur af því sem hann var á níunda og tíunda áratugnum.

Það er líka erfitt að treysta á hrygningarstofn sem byggir á einum árgangi. Aðstæður fyrir þremur árum geta skaðað klak en áhrifin koma ekki fram fyrr en nú.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar