„Ekki hægt að aðgreina vatn og skólp, það kemur saman“

Hart var deilt um framtíðarlausnir í fráveitumálum fyrir þéttbýlið á Egilsstöðum og Fellabæ á fjölmennum íbúafundi í gær. Þrætt var um hvort lausnirnar uppfylltu kröfur og kostnað við þær.

Í dag eru þrjár skólphreinsistöðvar sem hreinsa skólp áður en það rennur út í Eyvindará og ein í Fellabæ við Lagarfljót. Þrátt fyrir þær er óhreinsuðu skóli veitt út í Eyvindará í gegnum lagnir sem liggja í gegnum Norðurtún, út í Lagarfljót í Egilsstaðavík og úr Fellabæ.

Þetta þýðir að aðeins hluti skólpsins er hreinsaður. „Þetta eru ákaflega flott hreinsivirki og vel að þeim staðið. Þau hreinsa vel það litla magn sem fer í gegnum þau,“ sagði Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) sem sér um fráveitumálin, á fundinum í gær.

Stöðvarnar þyrftu að hreinsa sexfalt meira

Við bætist að þegar rignir fer meira vatn inn á kerfið, það fer á yfirfall og enn meira fer óhreinsað út í árnar. Að auki hefur verið hitaveituvatn og vatn úr sundlauginni inni á kerfinu sem ekki átti að vera en eykur enn á magnið í kerfinu. Ekki var ágreiningur um að meira magn væri á ferðinni í kerfinu en á að vera.

„Þótt stöðvarnar séu flottar og virki vel þá þyrftu þær að vera sexfalt öflugri til að anna því magni sem fer í gegnum þær. Hitt fer beint í ána,“ sagði Reynir Sævarsson, fagstjóri fráveitna hjá verkfræðistofunni Eflu.

HEF hefur undanfarin ár unnið að framtíðarlausnum þannig að allt skólp úr þéttbýlinu verði hreinsað. Með aðstoð Eflu hefur verið hannað hreinsivirki sem staðsett yrði rétt utan flugbrautarinnar á Egilsstöðum. Að því þyrfti að leggja lagnir, meðal annars yfir Lagarfljót og Egilsstaðanes úr Fellabæ.

Um þá lausn var hins vegar lítil sátt á fundinum.

Hvað kosta lausnirnar?

Reynir kynnti útreikninga um að ef ráðist yrði strax í að koma upp tvöföldu frárennsliskerfi í bænum, til að aðskilja skólp frá hreinu vatni, kostaði það 1-1,4 milljarð króna. Ef farið yrði blönduð leið á lengri tíma með að stækka núverandi stöðvar og byggja kerfið upp í áföngum kostaði það 150 milljónir króna á ári, auk hálfs milljarðs í fjárfestingar. Samkvæmt gögnum kostar rekstur stöðvanna í dag 45 milljónir á ári.

Reynir taldi hins vegar að bygging nýrrar miðlægar stöð sem tæki allt skólpið og það sem henni tengdist kostaði 60 milljónir á ári. Um þá tölu var hins vegar ekki sátt og varð Reynir tvísaga á fundinum um hvort samanburðartölur hans væru með eða án virðisaukaskatti. Talið var að sú lausn kosti 800 milljónir króna án virðisaukaskatts þegar allt er talið.

Guðmundur Davíðsson benti á að þrýst væri á að ríkið samþykkti að endurgreiða virðisaukaskatt af fráveituframkvæmdum en það er ekki enn komið í gegn.

Núverandi hreinsistöðvar eru í eigu Bólholts sem rekur þær samkvæmt samningi við sveitarfélagið Fljótsdalshérað. Samningurinn var gerður árið 2007 til 20 ára. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið eignist stöðvarnar að samningstímanum loknum. Á fundinum var spurt út í samanburð á rekstrarkostnaði þegar stöðvarnar yrðu komnar í eigu sveitarfélagsins. Fá svör fengust við þeim spurningum. Gert er ráð fyrir að nýja kerfið verið tilbúið það ár.

„Plan A er ólöglegt“

Nýja stöðin yrði búin eins þreps hreinsun. Íslenskar reglur kveða hins vegar á um tveggja þrepa hreinsun. Skýrsla sem kom út síðasta haust sýndi fram á að afar fráveitur hérlendis uppfylla þær reglur.

Reynir taldi kostnaðinn af því að uppfylla kröfurnar væru 90 milljónir króna. Hann taldi hins vegar að eins þreps hreinsunin dygði og benti á að íslenskar reglur væru strangari en víðast hvar í Evrópu. Að auki væri Lagarfljótið hinn endanlegi viðtaki og þar myndi efnin þynnast verulega út. „Eins þreps hreinsun er að mínu mati ásættanleg hreinsun fyrir þennan gríðarlega öfluga viðtaka. Ég er faglega þeirrar skoðunar að þessi viðtaki sé ekki viðkvæmur,“ sagði Reynir.

Um þetta var ekki sátt meðal fundarmanna. „Eins þreps hreinsun er rotþró sem lögleidd var árið 1985. Ætlum við 30 ár aftur í tímann?“ sagði Óskar Bjarnason, framkvæmdastjóri Bólholts.

Óskar hélt því fram að áform hitaveitunnar væru beinlínis ólögleg og vísaði í orð sérfræðings hjá Umhverfisstofnun máli sínu til stuðnings. Ekki væri til nein flokkun á viðtökum. „Plan A er ólöglegt. Þið megið ekki setja eins þreps hreinsun, jafnvel þótt þið hreinsið út í fljót.“

Óskar fleiri fundarmenn héldu því fram að til væru lausnir á hreinsunarvandanum á Egilsstöðum sem fullnægðu kröfum en kostuðu aðeins 400 milljónir króna með virðisaukaskatti.

Hvaða svigrúm hefur HEF?

Guðmundur benti á að HEF væri þröngur stakkur sniðinn í fráveitumálum þar sem holræsagjöld dygðu ekki fyrir uppbyggingu.

Stjórnarfólk HEF var spurt hvort ekki hefðu verið kannaðir aðrir möguleikar en þeir sem Efla lagði til. Karl S. Lauritzson sagðist hafa rætt við bæði sérfræðinga og fólk frá öðrum svipuðum sveitarfélögum. Ekki hefðu komið fram betri lausnir.

Skúli Björnsson kvaðst sagðist val á lausnum ráðast á því úr hverju væri að spila, hann hefði samþykkt þessa lausn út frá kostnaði. Hann ítrekaði hins vegar að stefna ætti að fullkominni hreinsun þegar efni leyfðu.

Þúsund sérfræðingar en þrír vitleysingar vinna verkið

Gunnar Jónsson, stjórnarformaður HEF, átti hins vegar síðasta orðið. „Þetta er eins og þegar ryðja á snjó, þá verða 1000 manns sérfræðingar í því en svo eru þrír vitleysingar sem vinna verkið.

Það hafa allir lagt sig í lima við að leita lausna en svo eru það þið hinir sem berjið hausnum við steininn, ég er hissa að þið séuð ekki komnir með hausverk. Það er neitað að horfast við augu við það sem þarf að laga, þá spretta menn upp í nostalgíu sem löngu eru hættir í þessu.

Þið bara gleymduð að klára dæmið. Eftir stendur að þessar ágætu lausnir taka ekki við. Við erum einlæg í að vilja laga þetta.

Við höfum verið samhljóma í að finna lausnir til framtíðar. Ég veit ekki hverju bjargar að halda áfram sömu stefnu, þið eruð kannski sáttir við að sulla og drulla í fljótið og ána. 50% af öllu skólpinu er dælt út í Egilsstaðavík, það hefur verið bláköld stefna okkar í þessu máli.“

Þegar Gunnar var bent á að of mikið vatn væri í kerfinu til að hreinsivirkin hefðu undan var svar hans: „Það er ekki hægt að aðgreina vatn og skólp, það kemur saman“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.