Ekki nýtt að barist sé við bikblæðingar á austfirskum vegum

Vegagerðin reynir að bera sand ofan í vegkafla með bikblæðingum. Reglulega hefur blætt úr veginum um Fagradal síðustu daga auk þess sem einnig hafa verið vandamál á veginum fyrir utan Eyvindará við Egilsstaði.

Vika er síðan byrjað var að vara við blæðingum á veginum yfir Fagradal. Þær hafa haldið áfram flesta daga síðan. Fyrst og fremst er að ræða um tvo kafla, utan í Grænafelli og upp fyrir skriður en einnig í Egilsstaðaskógi.

Í gær varð einnig vart við blæðingar á veginum fyrir utan Eyvindará, í kringum vegamótin við Seyðisfjarðarveg. Allt eru þetta svæði þar sem blæðingar eru þekktar enda mestar líkur á þeim þar sem álagið er mest.

Snjómokstur skemmir klæðningarnar


Aðspurður um ástæður blæðinganna á Fagradal segir Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, að svo virðist sem steinefni tolli illa í klæðningunni. Nákvæmlega hvers vegna liggi ekki fyrir. Mögulega hafi bikið ekki verið í lagi auk þess sem gróft efni kunni að hafa gert veginn viðkvæmari fyrir snjómokstri.

Snjómokstur hefur einnig áhrif því við hann ýti steinum, eða efni, upp úr klæðningunni meðan olíuefnin sitji eftir. Hann hófst óvenjusnemma síðasta haust en nýtt klæðning var lögð á hluta þess vegar sem nú blæðir úr síðasta sumar.

Bikblæðingarnar verða annars í hlýju veðri og þegar umferð er mikil. Þyngra efnið, það er að segja steinarnir, geta þá sokkið niður í bikið sem situr eftir á yfirborðinu.Það getur síðan sest á hjólbarða farartækja þannig að grip minnkar og hætta skapast.

Um svæðið utan Eyvindará segir Sveinn að þar sé mikil og þung umferð sem slíti einkum beygjum þannig að grófa efnið sé orðið minna en æskilegt er.

Hlutfall viðloðunarefna aukið


Umferðarslys í Öxnadal um miðjan mánuðinn, þar sem rúta fór út af veginum, vakti upp umræðu um bikblæðingar. Blæðingar voru í veginum og hafa líkur verið leiddar að því að þær hafi orsakað slysið. Í umfjöllun Vegagerðarinnar í kjölfar slyssins er farið yfir mismunandi ástæður sem valdi blæðingunum, svo sem íblöndunarefni fyrir klæðningarnar.

Þar er ökumönnum ráðlagt að keyra ekki ofan í hjólförum með blæðingum heldur nær vegöxl. Þá eru vegfarendur hvattir til að láta vita af blæðingum þannig að hægt sé að bregðast við. Reynt er að bera grófan sand ofan í blæðingarnar. Það hefur verið gert eystra síðustu daga.

Þá bendir Sveinn á að Austfirðingar þekki vel til bikblæðinga sem hafi verið viðvarandi vandamál á svæðinu þegar hlýtt er í veðri. Hann bætir við að verið sé að skoða leiðir til framtíðar, bæði mismunandi viðloðunarefni en einnig að hækka hlutfall þess. Ákveðið hefur verið að fara þá leið fyrir það malbik sem lagt er á Íslandi í sumar. Val á steinefnum í klæðningu skiptir líka máli, en alltaf sé reynt að gæta að því.

Sveinn bendir einnig á að vandamálið sé heldur ekki séríslenskt. Hins vegar notast við malbik á umferðarþyngri vegum erlendis, sem er nærri fjórum sinnum dýrari en klæðningar. Í samantekt Vegagerðarinnar segir að æskilegt væri að stærri hluti vegakerfisins væri malbikaður í ljósi sífellt þyngri umferðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar