Ekki opnað aftur um Fjarðarheiði og Fagradal í dag

Vegunum yfir Fjarðarheiði og Fagradal hefur verið lokað og verða ekki opnaðir aftur í dag. Leiðinni yfir Fagradal var lokað í hádeginu eftir að snjóflóð féll á veginn.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni féll flóðið, um tíu metra breitt, skömmu fyrir hádegi á þekktum snjóflóðastað og fór yfir veginn.

Björgunarsveitin á Reyðarfirði var kölluð út um svipað leyti til að hjálpa bílum í vanda. Þeir höfðu verið í samfloti með mokstursbílnum en dregist aftur úr og fest.

Þá voru björgunarsveitir á Fáskrúðsfirði og Jökuldal einnig kallaðar út í dag til að hjálpa ferðalöngum í vanda en þá tókst að losa áður en sveitirnar komu á vettvang.

Vegurinn um Fagradal verður ekki opnaður aftur í dag vegna veðurs og snjóflóðahættu og vegurinn yfir Fjarðarheiði verður lokaður til morguns vegna veðurs. Ekkert skyggni hefur verið á vegunum og spáð er áframhaldandi vindi og aukinni úrkomu.

Að auki er ófært í Skriðdal, Hróarstungu og á Vatnsskarði eystra, þæfingur í Hjaltastaðaþinghá, Völlum og Fljótsdal. Vegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi hefur haldist opinn. Þar hefur ekki verið úrkoma en hvasst á köflum. Hann mun þó loka eftir að þjónustutíma lýkur klukkan 19:30.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.