Ekki rétt að banna eldi í Hellisfirði og Viðfirði að sinni

Sjávarútvegsráðherra telur ekki rétt að banna fiskeldi í Hellisfirði og Viðfirði á meðan vinna er í gangi við strandsvæðaskipulag fyrir Austfirði.

Þetta kemur fram í bréfi sem ráðuneytið sendi Fjarðabyggð nýverið. Ráðuneytið tók málið til skoðunar síðasta sumar eftir að sveitarfélagið hafði óskað eftir því við firðirnir yrðu friðaðir.

Niðurstaða ráðherrans er að ekki sé ástæða til að auglýsa breytingu um skipulag sem banni fiskeldi í fjörðunum á meðan vinna er í gangi við strandsvæðaskipulag. Þau gögn sem aflað var við athugunina og sjónarmið sem komu fram við athugunina verða hins vegar send inn í skipulagsferlið. Vonir standa til að það verði auglýst í haust.

En að sama skapi telur ráðherrann engar forsendur að svo stöddu til að ráðast í undirbúning fiskeldis í fjörðunum, svo sem burðarþolsmat.

Við athugunina var aflað umsagna frá Matvælastofnun, Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun auk Fjarðabyggðar. Matvælastofnun tók ekki afstöðu til eldis og Fiskistofa taldi ekki ástæðu til að leggjast gegn því.

Hafrannsóknastofnun taldi hins vegar efni til að banna fiskeldi í fjörðunum vegna neikvæðra áhrifa, annars vegar á sjóbleikju í ám þar, hins vegar vegna kóralþörungasvæði. Sýnt hefur verið fram á að í Hellisfirði séu stór slík svæði með fjölskrúðugu botndýralífi og vísbendingar eru um að það sama eigi við um Viðfjörð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.