Pramminn í Mjóafirði lætur á sjá undan ágangi sjávar

Gamall herprammi, sem í tæp 60 ár hefur legið í botni Mjóafjarðar, er farinn að láta verulega á sjá. Pramminn hefur lengi verið eitt helsta einkennistákn fjarðarins. Hann var upphaflega í eigu bandaríska hersins á Íslandi og notaður til flutninga á Vestfjörðum.

„Pramminn er að liðast í sundur, hann er ekki svipur hjá sjón,“ segir Sigfús Vilhjálmsson, bóndi á Brekku í Mjóafirði.

Pramminn er í botni fjarðarins og hefur löngum dregið að sér ferðafólk, ekki síst ljósmyndara enda má á alþjóðlegum síðum þeirra oft finna myndir af honum. Við hann er lítill áningarstaður, bílastæði og setubekkur.

Þegar komið er að prammanum í dag má sjá hvernig hann er að falla niður í miðjunni og hefur hann látið töluvert á sjá síðustu misseri en pramminn hefur legið í Mjóafirði frá árinu 1966.

Fenginn í flutninga fyrir ratsjárstöðina á Straumnesfjalli


Sögu hans og tæknilega lýsingu má lesa í ritgerðinni „Ratsjársvöðvar í Aðalvík, síðari hluti: kalda stríðið“ sem Friðþór Eydal, fyrrum upplýsingafulltrúi bandaríska hersis á Íslandi, skrifaði í ársrit Sögufélagsins árið 1999. Þar kemur fram að sambærilegir prammar hafi verið notaðir í Kóreustríðinu en þessi hafi komið til landsins árið 1958 og verið notaður til flutninga í kringum ratsárstöð hersins, sem var á Straumnesfjalli. Hafnlaust er þar í nágrenninu og var því notast við pramma.

Faðir Friðþórs, Kristbjörn Eydal og Benedikt Benediktsson, ættaðir frá Látrum í Aðalvík störfuðu við rekstur ratsjárstöðvarinnar á Straumnesfjalli og önnuðust til dæmis uppskipun úr skipum og bátum á víkinni. Þeir notuðu meðal annars innrásarprammann og smærri báta til verksins. Þegar pramminn kom létu þeir verða eitt fyrsta verk að smíða tréþak og glugga á stýrishúsið og markar enn fyrir þeim endurbótum í flakinu.

Óstöðugur á sjó


Auk þessa var pramminn einnig notaður til flutninga um Ísafjarðardjúp, svo sem á 18 tonna jarðýtu. Til þess varð að vera gott veður því hann var ekki gott sjóskip. Strax haustið 1959 var hann farinn að láta á sjá, ekki voru viðgerðarmenn eða varahlutir til staðar og var hann þá dæmdur ótraustur til notkunar.

Ratsjárstöðinni var lokað árið 1960 og var pramminn þá seldur til Reykjavíkur. Hann var dreginn þangað með varningi, meðal annars stórum flutningabíl, en í nágrenni Patreksfjarðar komst sjór inn í prammann. Við það hvolfdi hann af sér farminum.

Dreginn með síldarafskurð til Norðfjarðar

Pramminn var seldur til Austfjarða árið 1963. Notkun hans og eigendur virðast á reiki en í textum bæði Friðþórs og Sigfúsar er ljóst að hann er í notkun í Mjóafirði árið 1965. Friðþór greinir frá því að Akurnesingarnir og Þórður og Gunnar Ólafssynir hafi notað prammann en Gunnar rak síldarsöltunarstöð á Sólbrekku og Þórður gerði út bátinn Sólfara AK. Þeir fluttu afskurð frá stöðinni í bræðslu í Neskaupstað með prammanum. Sagt er að pramminn hafi verið í eigu verkfræðinga. Í texta Sigfúsar kemur fram að pramminn hafi verið vélarlaus og dreginn með farmi sínum.

Sigfús segir einnig frá því að pramminn hafi aðeins verið í notkun á Mjóafirði í tvö sumur. Hann hafi þótt óhagstæður því hann hefði alltaf verið þver og menn alltaf við það að „missa hann niður“ á leiðinni til Norðfjarðar. Honum var þess vegna lagt í fjöruborðinu á Tanga.

Í samtali við Austurfrétt rifjaði Sigfús einnig upp að skurðgrafa hefði verið flutt á prammanum fram og til baka til Loðmundarfjarðar. „Hann er enn mikið aðdráttarafl, jafnvel þótt hann sé orðinn svona hrumur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.