Lýsa þungum áhyggjum vegna óvissu í sjávarútvegsmálum

Bæjarráð Fjarðabyggðar brýnir fyrir nýjum stjórnvöldum að grípa sem fyrst til aðgerða vegna mikillar óvissu sem ríki í sjávarútvegsmálum um þessar mundir. Velgengni sveitarfélags á borð við Fjarðabyggð standi beinlínis eða falli eftir gengi í þeirri atvinnugrein hverju sinni.

Samþykkt var sérstök áskorun bæjarráðs Fjarðabyggðar til handa stjórnvöldum á fundi ráðsins í gær og sú áskorun send til fjármála,- atvinnuvega- og sveitarstjórnarráðherra auk þingmanna Norðausturkjördæmis.

Í fyrri hluta bókunarinnar er gagnrýnd sú óvissa í sjávarútvegi sem nú sé til komin vegna boðaðra hækkana á veiðigjöld en ekki síður sé alvarlegt að boðuð aukning strandveiðikvóta muni hafa neikvæð áhrif til dæmis á veiðikvóta uppsjávarskipa.

Bendir bæjarráð á þrennt sérstaklega sem huga beri sérstaklega að áður en lengra sé gengið:

A) Hækkun veiðigjalda mun auka kostnað útgerða á Austfjörðum ofan á umtalsverðar hækkanir sem urðu um áramótin og veikja þannig fjárhagslega getu þeirra.

B) Hækkanir á veiðigjöldum koma ofan á óstöðugleika sem þegar hefur ríkt í greininni, m.a. vegna loðnubrests, skerðinga á raforku og óvissu um markaðsaðstæður.

C) Fyrirséð er að slíkar hækkanir muni bitna á fjárfestingum fyrirtækja, draga úr afkomu þeirra og veikja samkeppnisstöðu þeirra á alþjóðamörkuðum. Þessar aðstæður hafa einnig afleidd áhrif á atvinnustig og tekjur samfélagsins sem þegar hafa dregist saman verulega vegna loðnubrests á liðnu ári. Hefur það haft veruleg áhrif á tekjur sveitarfélagsins Fjarðabyggðar eins og víðar um land.

Hvetur bæjarráð stjórnvöld til að hefja samtal og samstarf við hagsmunaaðila sem allra fyrst til að eyða óvissu og að framkvæmd verði greining á áhrifum boðaðra breytinga á fyrirtæki og samfélög sem byggi afkomu sína á sjávarútvegi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.