Ekki vísindaleg vinnubrögð við samanburð framhaldsskóla
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar segir tímaritið Frjálsa verslun vart hafa viðhaft „vísindaleg vinnubrögð“ þegar bornir voru saman framhaldsskólar landsins í úttekt í nýjasta tölublaði þess. Verkmenntaskóli Austurlands varð þar í neðsta sæti.
Framhaldsskólarnir voru bornir saman í sautján flokkum, svo sem menntun kennara og þátttöku í keppnum framhaldsskólanna svo sem Gettu betur.
Bæjarstjórnin segir könnun þar sem einkum sé horft til flokka sem snúa að „þátttöku nemenda í keppnum á vegum félags framhaldsskóla og sérgreinafélaga í einstökum námsgreinum sem kenndar eru í framhaldsskólum en ekki mæld gæði þeirrar vinnu, kennslu og árangurs sem fram fer í framhaldsskólum landsins.“
Þetta kemur fram í ályktun frá fundi bæjarstjórnar í vikunni. Bæjarstjórnin hafnar því að VA sé kynntur sem versti framhaldsskóli landsins og varar við að vinnubrögð sem þessi séu notuð sem mælikvarði á gæði skóla.
„Þá tekur Verkmenntaskóli Austurlands inn alla þá nemendur sem sækja um skólavist í honum en velur ekki út þá bestu né hafnar þeim sem ekki uppfylla skilyrðin enda segja lög um framhaldsskóla að svo skuli gert.“
Skólameistarar ýmissa framhaldsskóla, meðal annars Menntaskólans í Reykjavík sem kom best út úr samantektinni, hafa varað við aðferðafræðinni að baki úttektinni. Hið sama hefur menntamálaráðherra gert og bent á að þeir skólar sem best komi út geti valið úr nemendum.