Eldarnir í slökkviliðinu

Tvö fyrirtæki voru á síðasta ári fengin til að gera úttekt á starfsanda innan Slökkviliðs Fjarðabyggðar. Bæjarstjóri segir sveitarfélagið fordæma hvers konar einelti, ofbeldi og kynferðislega áreitni. Samkvæmt heimildum Austurfréttar hafa fleiri en eitt eineltismál komið upp innan liðsins síðustu misseri. Dómsmál hefur verið höfðað á hendur sveitarfélaginu vegna ólögmætrar uppsagnar vegna eineltis.

Einelti innan Slökkviliðs Fjarðabyggðar hefur verið til umræðu síðustu tvær vikur eftir að Mannlíf birti viðtal við Andreu Björk Sigurvinsdóttur þar sem hún lýsti grófu einelti sem hún varð fyrir þegar hún starfaði hjá slökkviliðinu 2017-2018.

Eftir að hún hætti í slökkviliðinu réði Andrea sig til annarra starfa á Reyðarfirði. Í viðtalinu lýsir hún að hún hafi ekki þolað lengur við í bæjarfélaginu sem lauk með því að hún flutti þaðan síðasta sumar.

Í síðasta tölublaði Mannlífs er rætt við annan fyrrum slökkviliðsmann, Gísla Briem, sem segir einelti, baktal og agaleysi hafa viðgengist innan liðsins árum saman án þess að á því væri tekið. Hann segir fleiri hafa hrakist úr liðinu vegna eineltis og starfsaðstæðna.

Ekki er vitnað í aðra slökkviliðsmenn undir nafni í greininni en vísað er til þess að blaðinu hafi borist símtöl og tölvupóstar frá starfsmönnum og íbúum sem lýsi vantrausti og slæmum starfsanda innan liðsins. Gísli hætti hins vegar störfum um það leyti sem Andrea byrjaði.

Heimildir Austurfréttar hníga í sömu átt, að Andrea Björk sé ekki eini starfsmaður Slökkviliðs Fjarðabyggðar sem sætt hafi einelti síðustu misseri og að starfsandinn sé ekki upp á það besta.

Athugasemdir frá stéttarfélaginu

Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segist ekki geta tjáð sig um mál einstakra starfsmanna. Þar með geti hann ekki tjáð sig um hvort gripið hafi verið til uppsagna eða áminninga innan Slökkviliðsins vegna eineltis á síðustu tveimur árum né fjölda þeirra. Hann staðfestir hins vegar að bæjaryfirvöld hafi á síðasta ári fengið tvö fyrirtæki, annars vegar Forvarnir ehf. og hins vegar Líf og sál ehf. til að vinna með starfsaðstæður í slökkviliðinu.

Á fundi bæjarstjórnar þann 6. júní í fyrra var tekið fyrir erindi frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna um starfsmannamál hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar. Bæjarráð hafði þegar bókað að málefnið væri í vinnslu og erindinu væri vísað til þeirrar vinnu hjá bæjarstjóra.

Erindið er merkt trúnaðarmál en Austurfrétt óskaði samt eftir afriti af samskiptum milli sveitarfélagsins og Landssambandsins, sem og öðrum gögnum undir sama málsnúmeri. Þeirri beiðni var hafnað á þeim forsendum að gögn um málefni starfsmanna væru undanþegin upplýsingalögum auk þess sem reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum leggur atvinnurekendum þær skyldur á herðar að um leið og þeir sýni nærgætni í málefnum sem varða einkahagi starfsmanna veiti þeir ekki utanaðkomandi upplýsingar um þau.

Í grein Mannlífs kemur fram að Andrea Björk hafi höfðað mál á hendur sveitarfélaginu og krefjist miskabóta vegna aðgerðaleysis þess. Karl Óttar staðfestir að sveitarfélaginu hafi borist kröfubréf frá henni sem sé til skoðunar.

Lögsókn fyrir ólögmæta uppsögn

En það er ekki eina dómsmálið sem höfðað hefur verið gegn sveitarfélaginu vegna starfsmannamála hjá Slökkviliðinu. Í síðustu viku var tekið fyrir í Héraðsdómi Austurlands mál slökkviliðsmanns á hendur sveitarfélaginu fyrir ólögmæta uppsögn, en starfsmanninum var vikið úr starfi vegna ásakana um einelti. Sá mun hafa hafið störf áður en þau mál áttu sér stað sem vísað er til í viðtali Mannlífs við Gísla Briem, eftir því sem Austurfrétt kemst næst.

Í stefnunni, sem Austurfrétt hefur undir höndum, hafnar hann alfarið ásökunum um einelti og telur málið eiga rót í flokkadráttum innan slökkviliðsins, sem ekki hafi verið tekið á. Þá hafi hann aðeins unnið með umræddum þolanda í mjög skamman tíma og lítil reynsla verið komin á þeirra samskipti.

Slökkviliðsmaðurinn gagnrýnir málsmeðferð sveitarfélagsins harðlega. Hann heldur því fram niðurstaðan hafi verið fyrirfram ákveðin og sett fram fyrirvaralaust í skriflegri greinargerð bæjarstjóra og bæjarritara um málið. Þar með hafi andmælaréttur hans ekki verið virtur, því hann hefði átt að veita áður en niðurstaðan lá fyrir.

Í stefnunni kemur enn fremur fram að fyrstu viðbrögð sveitarfélagsins, eftir að kvörtun vegna eineltis af hans hálfu barst, hafi verið að segja slökkviliðsmanninum upp en ekki leita annarra leiða fyrst og án þess að honum væri veitt áminning.Rannsókn bæjarritara og bæjarritara er gagnrýnd, ekki hafi verið leitað til viðurkenndra fagaðila, heldur hafi þeir rætt við handvalda starfsmenn án þess að starfsmaðurinn hefði neina aðkomu að.

Í stefnunni segir ennfremur að áhættumat fyrir starfsemi slökkviliðsins hafi ekki verið til staðar., þrátt fyrir lagaskyldu og ekki væri vanþörf á í ljósi sögunnar. Austurfrétt fékk það hins vegar afhent hjá sveitarfélaginu. Það er unnið árið 2017 af öryggisverði og öryggistrúnaðarmanni. Í því eru samskipti og umgengni á vinnustað sett í hæsta hættuflokk og sagt að búa þurfi til skýrar reglur þar um.

Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna segist ekki geta tjáð sig um mál einstakra félagsmanna. „Okkar hlutverk er að tryggja kjör og aðbúnað okkar félagsmanna. Til þess tryggjum við að ferlum sé fylgt, hvort sem um er að ræða öryggi og starfsumhverfi eða kjaramál,“ segir hann.

Kveðið á um tafarlaus viðbrögð

Hjá Fjarðabyggð voru samþykktar nýjar reglur um forvarnir vegna eineltis, kynbundins og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis á vinnustað í júlí 2018. Í 4. grein reglnanna er kveðið á um ábyrgð stjórnanda á vinnustað, að hann beri ábyrgð á vellíðan starfsmanna, skuli sinna forvörnum um eðlileg samskipti og hafa frumkvæði að íhlutun komi upp grunur um slík mál. Í sömu grein segir að starfsmenn skuli upplýsa yfirmann, öryggistrúnaðarmann eða bæjarritara, sem á þeim tíma var yfirmaður starfsmannamála Fjarðabyggðar, verði þeir fyrir einelti, ofbeldi eða áreiti.

Í 7. grein segir að bregðast skuli tafarlaust við og kanna öll mál sem berist. Viðbrögðin fela meðal annars í sér að talað skuli við þolanda og geranda, sem haft geti trúnaðarmenn sér til halds og trausts. Þá geti stjórnandi vinnustaðarins fengið stuðning frá stjórnsýslusviði sveitarfélagsins.

Nánar er kveðið á um viðbrögð, verklag og forvarnir í aðgerðaáætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi, sem samþykkt var í bæjarstjórn í mars í fyrra. Þar er meðal annars komið inn á að áhættumöt fyrir stofnanir verði tekin út á árinu 2019 og þau verði yfirfarin af sálfræðilegum fagaðila. Gerðar verði reglulegar starfsánægjukannanir, stjórnendur veiti fræðslu um samskipti og öryggisfulltrúar verði efldir í störfum sínum.

Reglur sveitarfélagsins staðfestar af Vinnueftirlitinu

Í svörum Karls Óttars við fyrirspurnum Austurfréttar um hvernig reglum sveitarfélagsins er fylgt eftir segir hann að ekki sé viðhaft sérstakt eftirlit með framkvæmd einstakra stjórnenda en hvert formlegt mál sé skoðað hverju sinni.

„Komi upp mál sem varða vinnuvernd og heilbrigði á vinnustað er unnið með þau eftir faglegu ferli innan hverrar stofnunar sveitarfélagsins, eins og gildandi lög og kjarasamningar gera ráð fyrir. Mál eru auk þess unnin í samræmi við þær leiðbeiningar og reglur sem Fjarðabyggð hefur sett sér varðandi starfsmannamál og nálgast má á heimasíðu sveitarfélagsins.“

Karl Óttar segir reglurnar byggja á reglugerð velferðarráðuneytisins um aðgerðir gegn einelti. Hjá sveitarfélaginu séu til staðar allar reglur til að takast á við eineltismál. Árin 2018 og 19 hafi verið settar „strangar reglur“ hjá sveitarfélaginu, þær sem vísað er til hér að framan. Vinnueftirlitið hafi tekið þær út og metið fullnægjandi.

Ekki skylda að leita til utanaðkomandi fagaðila

Karl Óttar segir að unnið hafi verið að þeim áherslum sem settar séu í reglunum með vinnustaðagreiningunni, sem unnin hafi verið í fyrra. Vinnunni sé framhaldið nú undir stjórn mannauðsstjóra með aðkomu öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða ásamt viðkomandi stjórnanda, sem eiga þátt í þeirri vinnu með fagaðila í vinnuvernd. Vinnan sé tímafrek þar sem áhættumötin eru sextán talsins fyrir misumfangsmikla starfsemi. Slökkvilið Fjarðabyggðar er ein þessara eininga. Áhættumötin eru ekki gefin út formlega, en þau byggja á vinnuverndarvísum Vinnueftirlitsins sem taki mötin reglulega út. Þá séu öryggisfulltrúar skipaðir fyrir hverja einingu, auk þess sem kosnir séu öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir, sem séu til staðar hjá slökkviliðinu.

Karl Óttar bendir ennfremur á að það sé mat hvers og eins vinnuveitanda hvernig hann leysi úr starfsmannamálum. Ekki sé skylda að leita til utanaðkomandi aðila í starfsmannamálum, frekar en öðrum stjórnunarmálum og vísar Karl Óttar til þess að í reglum velferðarráðuneytisins sé gert ráð fyrir að atvinnurekandi rannsaki mál nema eitthvað sérstakt komi til.

Einelti verði hins vegar ekki liðið innan stofnana sveitarfélagsins. „Fjarðabyggð fordæmir alla hegðun sem brýtur gegn ofangreindum reglum og tekur allar formlegar kvartanir vegna brota á þeim mjög alvarlega,“ segir í svari Karls Óttars.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.