Ellefu nautgripir fórust í eldi

Ellefu nautgripir fórust í eldsvoða á gripahúsi á bænum Fögruhlíð í Jökulsárhlíð í dag. Húsið varð alelda á stuttum tíma og er gjörónýtt.


„Það er ótrúlegt að tíðarfarið sé búið að vera svona. Annars hefðu fjárhúsin verið full af skepnum,“ segir Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi.

Í eldinum brann til kaldra kola 530 kinda fjárhús og áföst ásamt nautahúsi sem í voru 11 nautgripir sem drápust í eldinum. Húsið var stálgrindarhús og segir Baldur ekkert heilt eftir í því. „Járnið bráðnaði allt meira og minna.“

Eldsins varð vart rúmlega ellefu í morgun. Bóndinn í Fögruhlíð var þá staddur ásamt fleirum úti í Hólmatungu þegar þeir sáu reyk liggja upp frá fjárhúsunum. Nokkur spölur er þaðan og inn að Fögruhlíð.

Þegar þeir komu að húsunum voru þau alelda og féllu saman um 20 mínútum síðar. Mennirnir reyndu að rífa göt á veggi nautahússins en það var um seinan og það stútfull af reyk.

Upptök eldsins eru ókunn en lögreglan rannsakar þau. Slökkvilið frá Egilsstöðum naut aðstoðar slökkviliðs frá Vopnafirði við að ráða niðurlögum eldsins.

Þegar Austurfrétt hafði tal af Baldri laust fyrir klukkan fjögur reiknaði hann með að vakt yrði áfram við húsin í kvöld og fram eftir morgni. „Það er mikið eftir af glóð og við þurfum að reyna að ná járninu upp. Við erum rétt að byrja að anda eftir átökin og erum að skipuleggja næstu skref.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.