Endurbyggðu útikennslustofu á Borgarfirði

Nemendur og kennarar við Grunn- og leikskóla Borgarfjarðar tóku höndum saman og luku nýverið við endurbyggingu útikennslustofu skólans. Margvíslegar námsgreinar blönduðust saman við vinnuna.

Útikennslustofan var upphaflega byggð árið 2010 og þá valinn staður í skjóli víðirunna undir Bakkamel. Þáverandi nemendur og kennarar sóttu grjót, hlóðu veggi og reistu stoðir auk þess að hlaða eldstæði. Í það voru notaðir eldsteinar frá dögum hinnar einu og sönnu Bræðslu á Borgarfirði.

Kennslustofan var hins vegar aldrei fullkláruð en haustið 2018 var ákveðið að ganga í það verk. Þá var þak hannað og smíðað, lokið við að reisa veggi og smíðaður stafn. Stofan var formlega tekin í gagnið í nóvember.

Ekki var þá allt búið enn og í fyrrahaust sótti foreldrafélag skólans um styrk í samfélagssjóð Alcoa Fjarðaáls til að bæta aðgengi að stofunni. Styrkur fékkst upp á 100.000 krónur sem nýttur var í að ræsa fram og þurrka upp svæðið í kringum stofuna og leggja að henni göngustíg með brú, til að auðvelda aðgengi. Í vor var birki plantað í svæðið, en skólinn sækir reglulega um úthlutun úr Yrkjusjóði.

Þá var komið upp vegvísi og fuglahúsum sem nemendur og kennarar hönnuðu og smíðuðu í vetur. Sigþrúður Sigurðardóttir, skólastjóri, segir tíma í verkgreinum hafa nýst vel í framkvæmdirnar en að auki hafi verið hægt að flétta ýmsum öðrum námsgreinum saman við.

Hún segir stofuna geta nýst á ýmsa vegu í skólastarfinu. „Stofan er notuð mest á vorin og haustin en við höfum viljað flytja námið meira út. Okkur finnst að útinám eigi að fara öðruvísi fram en inni í skólastofunni. Þú lærir það sama en upplifir frekar náttúruna og það sem henni tengist frekar en að vinna í bókunum.

Við höfum kennt heimilisfræði í stofunni, þá farið út og bakað lummur og síðan höfum við farið í vettvangsrannsóknir.“

Sigþrúður segir að lok skólaársins nú marki ákveðin tímamót í framkvæmdum við stofuna, þótt alltaf sé hægt að halda áfram. Til dæmis sé stefnt á að smíða borð í stofuna til að nota ef skrifa þurfi niður minnisatriði.

Og þótt byggingin kallist kennslustofa er hún engu að síður öllum opin, alltaf, heimafólki gestum og gangandi sem vilja njóta borgfirskrar náttúru. Nemendur og starfsfólk skólans óski hins vegar þess að þeir sem noti stofuna sýni henni og þeirri miklu vinnu sem í hana hefur verið lögð virðingu og gangi vel um svæðið.

Útikennslustofan. Mynd: Sigþrúður Sigurðardóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.