Endurminningar Mjóafirðings úr Spánarstríðinu

„Við urðum strax forvitin um lýsingar Íslendings á stríði á erlendri grundu,” segir Einar Kári Jóhannsson, framkvæmdastjóri Unu útgáfuhúss sem hefur endurútgefið bókina Undir fána lýðveldisins með endurminningum byltingarmannsins Hallgríms Hallgrímssonar sem fyrstur Íslendinga tók sér vopn í hönd til að berjast gegn uppgangi fasisma í Evrópu. Hallgrímur var fæddur í Mjóafirði og fórst undan ströndum Langaness.

Una útgáfuhús er nýtt bókaforlag og er Einar Kári framkvæmdarstjóri þess. Undir fána lýðveldisins er fyrsta bókin sem forlagið gefur út. „Við sem að útgáfunni stöndum erum ungt fólk sem stundað hefur nám í íslensku, heimspeki og bókmenntafræði og deilum áhuga á bókmenntum og íslenskri bókmenntasögu. Við höfum einnig starfað lengi saman í bókabúð í miðbæ Reykjavíkur og þar kviknaði hugmyndin um að stofna eigin útgáfu.

Stefna forlagsins er að gefa út skáldskap nýrra höfunda sem og endurútgefa ófáanlegar íslenskar bækur sem hafa djúpa sögulega tengingu og menningarlegt gildi, að gefa út klassískar erlendar bókmenntir í vönduðum þýðingum auk þess að vera vettvangur fyrir ný skáld til að stíga fram á ritvöllinn í skapandi samstarfi á jafningjagrundvelli,“ segir Einar, en bókin kom fyrst út árið 1941, þá gefin út af Birni Bjarnasyni, félaga Hallgríms.


Fjörug, spennandi og átakanleg lýsing
Í lýsingu á bókinni segir: Hallgrímur Hallgrímsson (1910-1942) var byltingarmaður sem fyrstur Íslendinga tók sér vopn í hönd til að berjast gegn uppgangi fasisma í Evrópu. Það gerði hann með alþjóðasveitum kommúnista sem studdu spænska lýðveldið í hinu alræmda borgarastríði þar í landi sem stóð frá 1936 til 1939. Sjálfur barðist Hallgrímur frá því síðla árs 1937 til 1938. Frásögn hans er fjörug, spennandi og átakanleg en jafnframt einstök heimild um afdrif hugsjónamanns á einhverjum mestu umbrotatímum í evrópskum stjórnmálum, einlægar lýsingar á þátttöku Íslendings í stríði á erlendri grundu.“



Bókin vakti forvitni
„Endurminningar Hallgríms Hallgrímssonar úr Spánarstríðinu eru gott dæmi um áherslur okkar hjá Unu útgáfuhúsi. Við heyrðum fyrst um bókina við lestur á skáldsögunni Yfir Ebrófljótið eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, sem byggir á bók Hallgríms. Þegar við fórum að lesa þessa frásögn hans varð okkur ljóst að hún væri vel skrifuð, spennandi og skemmtileg. Auk þess rímar hún við þróun mála í dag, bæði í heimsmálunum og hér innanlands,“ segir Einar, aðspurður af hverju forlagið hafi ákveðið að endurútgefa bókina. Í ítarlegum eftirmála er sagt frá ævintýraríku lífshlaupi Hallgríms Hallgrímssonar og veru hans á Spáni.


Ólst upp við mikla fátækt
Einar segir hópinn hafa lagst í mikla rannskóknarvinnu á lífi og störfum Hallgríms. „Hann fæddist í Mjóafirði árið 1910. Foreldrar hans voru vinnuhjú úr Þingeyjarsveit og leit þeirra að atvinnu og búsetu leiddi þau í Mjóafjörð þar sem nýir mótorbátar höfðu blásið lífi í atvinnuhætti. Nokkrum mánuðum áður en Hallgrímur fæddist lést faðir hans í sjósókn. Hallgrímur ólst því upp við mikla fátækt og eftir nokkur ár í Mjóafirði fylgdi hann móður sinni í vinnumennsku víða um Þingeyjarsveit, aðallega á Tjörnesi.”


Talið er að tundurdufl eða kafbátur hafi grandað skipinu
„Hallgrímur gekk í Gagnfræðaskólann á Akureyri þar sem hann kynntist róttækum hugmyndum kommúnista hjá Einari Olgeirssyni. Hann varð fljótt virkur í stéttabaráttunni en árið 1930 flutti hann suður og varð meðal yngstu stofnenda Kommúnistaflokks Íslands. Hann og aðrir ungir kommúnistar fengu svo tækifæri til að fara til Moskvu og nema fræði í leynilegum skólum Komintern, sem sumir sagnfræðingar vilja meina að hafi verið undirbúningsnám fyrir byltingastarfsemi.

Eftir heimkomuna var Hallgrímur öflugur í stéttabaráttunni, en þó frekar á bak við tjöldin og tók við stjórn Varnarliðs verkalýðsins í desember 1938, og varð hann þá einnig erindreki Sósíalistaflokksins og varaformaður Dagsbrúnar. Hann var svo dæmdur í fangelsi fyrir landráð árið 1941 þegar hann tók á sig sökina í hinu svokallaða „dreifibréfsmáli“, sem fólst í dreifingu verkfallsáróðurs meðal enskra hermanna sem skipað var að ganga í störf íslenskra verkamanna. Ljóst er að hann skrifaði ekki bréfið heldur tók á sig sökina til þess að hlífa flokknum og félögum hans við frekari vandræðum. Fyrir vikið sat hann inni í tæplega átta mánuði á vinnuhælinu Litla-Hrauni.

Árið 1942 var hann svo á ferð um Austfirði sem erindreki Sósíalistaflokksins og tók sér far frá Seyðisfirði með Sæborg EA 383. Skipið hvarf undan ströndum Langaness og enn í dag er ekki nákvæmlega vitað hvað hefur gerst, þó líklegt sé talið að tundurdufl eða káfbátur hafi grandað skipinu,“ segir Einar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.