Engar áhyggjur af austfirskum hitaveitum
Vatnsbúskapur hjá austfirskum hitaveitum er í góðu lagi, þrátt fyrir mikinn kulda síðustu daga.„Hér er allt í besta lagi, við getum ekki kvartað,“ segir Páll Breiðfjörð Pálsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella.
Hann segir notkunina hafa aukist lítillega en ekki neitt umfram það sem þekkist í miklum frostum. Hann hefur ekki áhyggjur af stöðunni þótt spáð sé 5-10 stiga frosti fram yfir helgi. Kuldinn hefur haft áhrif á hitaveitur á Suðurlandi þar sem hefur þurft að draga úr afhendingu til notenda.
Páll bendir á að það það sé bót í máli að mikill púðursnjór hafi fallið eystra sem einangri byggingar, þótt hann kæli umhverfið fyrst. Þá hafi vindur verið rólegur og því ekki bætt í með vindkælingu.
Staðan er einnig góð hjá Hitaveitu Fjarðabyggðar. Marinó Stefánsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs, segir notkunina í samræmi við síðustu ár. Fylgst sé með stöðunni til að geta brugðist við ef eitthvað breytist.