Engar Íslandstökur í lokaseríu Fortitude

Engar Íslandstökur verða í þriðju og síðustu þáttaröðinni af bresku spennuþáttunum Fortitude sem teknir verða upp á næstunni. Útitökur fyrir fyrstu þáttaraðirnar tvær ásamt fleiri atriðum voru teknar upp á Austfjörðum.

Þetta staðfesti talsmaður Sky sjónvarpsstöðvarinnar, sem kaupir þættina og frumsýnir þá, eftir fyrirspurn Austurfréttar. Í staðinn verður tekið upp á Svalbarða þar sem þættirnir gerast í raun.

Sjónvarpsstöðin tilkynnti í síðustu viku að þriðja þáttaröðin yrði tekin upp innan skamms og hún verði jafnframt sú síðasta.

Fyrsta þáttaröðin naut mikilla vinsælda og horfði yfir milljón Breta á hvern þátt. Áhorfið hrundi hins vegar á meðan önnur þáttaröðin var í loftinu, niður í 0,1 milljón á lokaþáttinn.

Forsvarsmenn Sky bera þó höfuðið hátt og segja að 1,4 milljón manna hafi horft á hvern þátt annarrar þáttaraðar, auk þess sem þættirnir voru seldir til yfir 200 sjónvarpsstöðva á heimsvísu. Engin þáttaröð Sky hefur verið seld jafn víða.

Aðeins fjórir þættir verða í nýju þáttaröðinni, í stað tólf og tíu áður. Björn Hlynur Haraldsson verður áfram með hlutverk í þáttunum líkt og önnur kunnugleg andlits svo sem Dennis Quaid, Richard Dormer, Luke Treadaway og Mia Jexen.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.