Engin ákvörðun um frestun kosninga í dag
Engar ákvarðanir verða teknar í dag um að fresta kjörfundi í Alþingiskosningunum á morgun vegna vondrar veðurspár og sennilegrar ófærðar. Kjörstjórnum á einstökum stöðum er ætlað að meta hvort kosning geti farið fram með eðlilegum hætti.Yfirkjörstjórnir í landinu og landskjörstjórn luku fundi um stöðuna laust fyrir klukkan 16 í dag. Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis segir stöðuna óbreytta, stefnt sé að því að opna kjörstaði á Austurlandi með hefðbundnum hætti í fyrramálið.
„Austfirðingar eru vanir ýmsum veðrum. Við sjáum til hvort þeir treysti sér ekki allir á kjörstað,“ segir hann. Í ljósi veðurspárinnar hefur verið aukið við opnunartíma sýsluskrifstofa fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Á Egilsstöðum og Eskifirði er opið til kl 18:00.
Gestur segir að staðan verði endurmetin í fyrramálið, þegar betur komi í ljós hversu slæmt veðrið verður og hvernig Vegagerðinni gangi að halda leiðum færum. Það verði gert í samráði við undirkjörstjórnir. „Við látum það í hendur heimamanna að meta stöðuna. Við höfum þennan kost að fresta kosningu ef ástæða er til,“ segir Gestur.
Samkvæmt lögum er heimilt að loka kjörstað fimm klukkustundum eftir upphafi kjörfundar, hafi enginn kjósandi komið í hálftíma, eða ef vitað er að allir í kjördeildinni hafi kosið.
Á Egilsstöðum hefur snjóað síðan í morgun, ólíkt því sem spáð var. Þar er því kominn nokkur púðursnjór. Í kvöld á síðan að fara að snjóa af alvöru og ekki stytta upp fyrr en aðfaranótt sunnudags. Í fyrramálið fer að hvessa en af alvöru eftir hádegið. Slíkt getur leitt til þess að þótt kjörfundur klárist verði ekki hægt að koma kjörgögnum á talningarstað á Akureyri.
Við slíkar kringumstæður yrði beðið með talningu. Heimilt er að telja í öðrum kjördæmum þótt sú staða komi upp. Ef fresta þarf kjörfundi verður hvergi hægt að byrja að telja.