Engin LungA hátíð í sumar

Listahátíðinni LungA, sem haldin hefur verði árlega á Seyðisfirði frá árinu 2000, verður ekki haldin í sumar vegna Covid-19 faraldursins. Tuttugu ára afmælisfögnuði er því frestað um ár.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem hátíðarhaldarar sendu frá sér í gær.

Þar segir að ástæðan sé einföld, skipuleggjendur geti ekki borið ábyrgð á að stefna saman jafn mörgum og vanalega sæki hátíðina. Smit hefur ekki enn verið greint á Seyðisfirði og vilja skipuleggjendur ekki taka áhættuna á því með að stefna fjölda fólks til staðarins í nafni listarinnar.

Hátíðina átti að halda 11. – 19. júlí í sumar. Ekki er enn ljóst hvaða takmarkanir um samkomur verða þá í gildi en útlit er fyrir að þá verði enn til staðar reglur sem skylda samkomuhaldara til að tryggja að gestir geti haft minnst tvo metra á milli sín.

Segja má að LungA eigi sér tvær þungamiðjur. Annars vegar listasmiðjur og síðan mikla útitónleika síðasta kvöldið. Í tilkynningunni kemur fram að ekki sé hægt að halda listamönnum og birgjum í óvissu lengur. Þeir sem hafa keypt miða á hátíðina býðst að fá hann endurgreiddan eða færðan yfri á næsta ár.

Þá er bent á fjárhagslegar skuldbindingar. Ef aflýsa þyrfti á síðustu stundu yrði það trúlega hátíðinni endanlega á falli og nógu þungur er róðurinn fyrir. Ekki er talið heldur hægt að bjóða upp á gistingu eða listasmiðjur svo það standi undir sér á meðan tveggja metra reglan stendur.

„Eðli málsins samkvæmt er þetta gríðarlegt áfall fyrir okkur, enda mikil vinna og tilhlökkun að baki, en í ljósi aðstæðna bregðumst við þessari fordæmalausri stöðu og snúum aftur tvíefld á næsta ári,“ segir Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastýra hátíðarinnar í tilkynningu.

Skipuleggjendur LungA ætla þó ekki að leggja árar alfarið í bát og boða minni viðburði í júlí fyrir Seyðfirðinga og gesti. Þá sé verið að skipuleggja opið vefgallerí auk þess sem 20 ára afmælisbók LungA og afmælisvarning verði hægt að kaupa í vefverslun hátíðarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar