Engin ölvunarbrot né akstur undir áhrifum vímugjafa um liðna helgi
Þó ýmsar sumarhátíðirnar austanlands trekki góðan fjölda fólks var það að líkindum síðasta helgi sem hvað flestir voru að njóta og skemmta sér annaðhvort á Bræðslunni á Borgarfirði eystri eða á Frönskum dögum á Fáskrúðsfirði. Þrátt fyrir mikinn fjölda gesta gekk allt mætavel fyrir sig að mati lögreglu.
Samkvæmt gögnum lögreglu voru skráð alls 71 verkefni yfir helgina í fjórðungnum öllum.
Þar stendur hvað hæst að engin alvarleg slys eða meiðsl urðu á hátíðunum sjálfum. Tveir einstaklingar hlutu handleggsbrot og einn einstaklingur ökklabrotnaði en þar með það upp talið. Á vegum úti varð aðeins eitt umferðarslys á þjóðveginum við Breiðdalsvík þar sem ökumaður bifhjóls missti stjórn á hjóli sínu með þeim afleiðingum að sá ökkla- og rifbeinsbrotnaði.
Engir stútar
Ekki síður jákvætt að mati lögreglu er að þrátt fyrir að 500 ökumenn hefðu verið stöðvaðir til að kanna ástand þeirra reyndist enginn þeirra undir áhrifum hvorki áfengis né annarra vímugjafa. Hraðakstursbrot reyndust þó 6 talsins og umferðarlagabrot önnur voru 4.
Að mati þeirra lögreglumanna sem unnu um helgina á Borgar- og Fáskrúðsfirði gekk allt meira og minna mjög vel þrátt fyrir mikinn gestafjölda.
Í aðdraganda Bræðsluvikunnar komu bræðslustjórar, rekstraraðilar og fulltrúar neyðaraðila og lögreglu komu saman til að samræma aðgerðir fyrir hátíðina. Allt gekk þar að óskum í kjölfarið næstu dagana. Mynd Bræðslan