Engin svör frá Vegagerðinni um viðhald heimreiða í Múlaþingi
Fram hefur komið á íbúafundum síðustu misserin nokkur óánægja í Múlaþingi með bágt ástand heimreiða og héraðsvega víða í sveitarfélaginu. Engin svör eða viðbrögð vegna þessa berast frá Vegagerðinni.
Héraðsvegir, og þar með taldar heimreiðar að býlum, atvinnu- og kirkjustöðum, skólum og öðrum stofnunum utan þéttbýlis, er á forræði Vegagerðinnar á hverjum stað fyrir sig. Hafa allnokkrar ábendingar komið fram á íbúafundum sem haldnir eru reglulega í dreifbýli Múlaþings um bágt eða lélegt ástand margra heimreiða og úrbóta óskað.
Í kjölfar ábendinga þessa efnis fyrir ári síðan fól umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings framkvæmda- og umhverfismálastjóra að koma erindinu áfram til Vegagerðarinnar og óska upplýsinga um stöðuna. Nýverið ítrekaði heimastjórn Fljótsdalshéraðs óskir um úrbætur í málinu eftir enn fleiri athugasemdir á íbúafundum sem fram fóru liðinn vetur.
Aðspurð um viðbrögð Vegagerðarinnar þetta ár sem liðið er frá því að erindinu var komið á framfæri við stofnunina staðfestir Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþings, að viðbrögðin hingað til hafi engin verið. Ekkert svar hafi enn borist frá Vegagerðinni.
Það er Vegagerðarinnar að sinna viðhaldi og uppbyggingu heimreiða í dreifbýli landsins en víða hafa margir beðið lengi eftir slíkum vegabótum við heimili sín. Mynd AE