„Enn í dag ofboðslega sár kerfinu“

Kona, sem varð fyrir hrottalegri líkamsárás af hálfu fyrrum sambýlismanns síns á Vopnafirði um miðjan október, segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með hafa ekki fengið þá hjálp frá lögreglu og yfirvöldum sem hún vænti. Hún segir fjölda kvenna í svipaðri aðstöðu hafa haft samband við sig síðustu vikur.

„Þarna er klárlega eitthvað sem þarf að vinna betur því þetta er ekki í lagi. Það þýðir ekki að hafa þessa einstaklinga sem eru svona lasnir lausa, eins og ekkert sé að. Þeir eru tifandi tímasprengjur. Þetta snýst ekki bara um líf fullorðinna einstaklinga heldur líka líf barna.“

Þetta sagði Hafdís Bára Óskarsdóttir á Vopnafirði í samtali við Kastljós RÚV í gærkvöldi. Hafdís fór þar yfir hrottalega líkamsárás sem hún varð fyrir af hendi fyrrum sambýlismanns síns um miðjan október. Maðurinn situr í gæsluvarðhaldi fyrir árásina sem lögregla telur hafa verið það hættulega að hún jafngildi tilraun til manndráps.

Það var þó ekki fyrsta niðurstaða lögreglunnar. Eftir árásina seinni part miðvikudagsins 16. október var tekin skýrsla af manninum og honum síðan sleppt en Hafdís var þá komin á Sjúkrahúsið á Akureyri. Eftir að áverkavottorð læknis barst þaðan, sem og skýrsla sem lögreglan á Norðurlandi eystra tók af Hafdísi, var maðurinn handtekinn á föstudegi og úrskurðaður í gæsluvarðhald sem hefur síðar verið framlengt. Hluta varðhaldsins tók hann út á heilbrigðisstofnun vegna geðrænna veikinda.

Reiðiköstin ágerðust


Í viðtalinu gagnrýndi Hafdís að lögregla eða yfirvöld hafi ekki gripið til harðari aðgerða fyrr því staðan hafi versnað stöðugt. Hún lýsir því að hún og maðurinn hafi byrjað saman árið 2014 og flutt austur þremur árum síðar. Vorið 2022 hafi verið farið að bera á skapgerðarbrestum, einkum miklum og óvæntum reiðiköstum. Við hafi bæst annað andlegt ofbeldi. „Ég nötraði öll í hvert skipti sem hann hækkaði róminn,“ segir Hafdís.

Hún kveðst fyrst hafa vonast til að ástandið skánaði en síðan orðið það ljóst að það myndi ekki gerast og því ekki annað að gera en biðja manninn að fara að heimilinu. Það hafi gengið treglega því hann hafi alltaf birst aftur. Í sumar fékk hann leigt íbúðarhús í nokkur hundruð metra fjarlægð þaðan sem hann gat fylgst með nær öllum afhöfnum Hafdísar.

Lögreglan taldi sig ekki hafa heimildir til aðgerða


Hafdís segist hafa látið lögreglu vita af ástandinu. Svörin hafi verið þau að lögreglan vildi gjarnan geta gert eitthvað en hefði ekki heimildir til þess. Hún hafi til dæmis ekki treyst sér til að beita nálgunarbanni. „Mér finnst þetta svo sérstakt. Ég veit hvað er alvarlegt en ekki þeir. Það er ekki lögreglan heldur ég sem er í þessum aðstæðum og þekki einstaklinginn og veit hversu alvarlegt þetta er að verða.“

Hafdís segir afbrýðissemi og ástand mannsins hafa versnað áfram. Í haust fékk hún svokallaða krækju á síma sinn til að geta látið Neyðarlínu strax vita. Krækjan virkaði ekki þegar maðurinn réðist á hana á heimili hennar sunnudaginn 13. október. Hafdísi tókst að koma honum út.

Eftir það óskuðu barnaverndaryfirvöld eftir nálgunarbanni á manninn, en því var hafnað að morgni miðvikudagsins. Vinkona Hafdísar og vinur voru þarna farin að vera hjá henni til að reyna að verja hana. Það dugði ekki til, seinni part miðvikudags var Hafdís ein úti í skemmu þegar maðurinn birtist og lagði til hennar með járnkarli.

Fleiri konur í svipaðri stöðu


Hafdís kveðst ekki vita hvers vegna maðurinn hafi hætt, mögulega því vinkona hennar var á leiðinni hafandi heyrt Hafdísi kalla á hjálp. Hafdís var á sjúkrahúsi í nokkra daga en maðurinn sem fyrr segir í gæsluvarðhaldi.

„Ég er enn í dag ofboðslega sár kerfinu. Ég sá fyrir mér að ég fengi eitthvert plagg, að það væri aðgerðir í svona málum þar sem fólki í slíkum aðstæðum væri hjálpað. Það er kannski til fullt af úrræðum en engar lausnir. Það hafa haft samband við mig margar konur sem eru jafnvel í sömu stöðu.“

Fram kom hjá RÚV að rannsókn málsins sé lokið og það komið til Héraðssaksóknara. Lögreglan hefur veitt upplýsingar um framgang málsins, svo sem við framlengingu varðhalds, en ekki viljað tjá sig um málavexti á meðan það er til meðferðar.

Mynd: RÚV/Skjáskot

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.