Er eðlilegt að heilbrigðisþjónusta lifi á afkomu fyrirtækja?

Síldarvinnslan og tengd fyrirtæki í Neskaupsatð hafa undanfarin sex ár veitt 150 milljónum króna til að efla heilbrigðisþjónustu á Austurlandi. Bæjarfulltrúar í Fjarðabyggð segja það umhugsunarvert umhverfi sem velti kostnaði af opinberum stofnunum yfir á nærsamfélagið.

Þegar Síldarvinnslan fagnaði 60 ára afmæli sínu í desember veitti fyrirtækið sjúkrahúsinu sjö milljóna króna styrk til kaupa á sérhæfðu hjartaóskoðunartæki.

Í samantekt sem birt var á heimasíðu Síldarvinnslunnar í gær kemur fram að fyrirtækið, í samvinnu við SÚN og Olíusamlag útgerðarmanna í Neskaupstað, hafi styrkt tækjakaup á sjúkrahúsinu um 150 milljónir króna á sex árum.

Upphæðin skiptist þannig að fyrirtækin lögðu 50 milljónir samtals í flugvöllinn á Norðfirði, Síldarvinnslan hefur styrkt tækjakaup um 45 milljónir, SÚN annað eins og við bætast 12,3 milljónir frá Olíusamlaginu.

„Það liggur við að stefna ríkisins sé að svelta stofnanir þannig að umhverfið rísi upp og komi með fjárframlög,“ sagði Einar Már Sigurðsson, bæjarfulltrúi Fjarðalistans á síðasta fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar fyrir jól þar sem styrkveitingar Síldarvinnslunnar voru ræddar.

„Er það eðlilegt samfélag sem lætur heilbrigðisþjónustu lifa eða deyja á afgangi fyrirtækja? Hví er skattkerfið okkar rekið þannig að við þurfum að berjast fyrir því að fyrirtækin séu skattlögð þannig að þau geti deilt út arði á þennan hátt,“ sagði Einar.

Fleiri en Einar veltu fyrir sér hversu mjög heilbrigðisþjónustan í dreifbýlinu treysti á framlag einkafyrirtækja. „Áhugi fyrirtækjanna er stórkostlegur en það er líka stórkostlegt að það væru engin tæki til staðar ef ekki væri til að dreifa velvilja fyrirtækjanna,“ sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.