Erfitt að byggja upp annað en sauðfjárbúskap í sveitum án þriggja fasa rafmagns

Bóndi í Djúpavogshreppi segir skort á þriggja fasa rafmagni hamla atvinnuuppbyggingu í sveitum landsins. Þingmaður segir miður að enn séu 30% háspennukerfisins einfasa.


„Hér erum við að reyna að byggja upp matvælaframleiðslu á einfasa rafmagni og höfum rekið okkur illilega á að það er gjörsamlega ómögulegt. Öll tæki í matvælaframleiðslu (og öðrum iðnaði) krefjast þriggja fasa rafmagns.

Slíkt var innleitt í þéttbýli og sums staðar í dreifbýli fyrir mörgum áratugum en hefur ekki enn sést í dreifbýli á Austurlandi (og víða annars staðar) þar sem rafmagn er einfasa,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson, bóndi og listamaður á Karlsstöðum í Berufirði, í opnu bréfi sem hann sendi þingmönnum og fjölmiðlum nýverið.

Í samtali við nýjasta tölublað Austurgluggans segir hann hann rafmagnsstöðuna „heftandi“. Bulsuframleiðsla Karlsstaðabænda fer fram í Reykjavík þar sem tæki sem notuð eru þurfa þriggja fasa rafmagn og er ekki hægt að breyta.

Tækjum til framleiðslu Sveitasnakks hefur verið breytt með miklum tilkostnaði. „Þetta er stór þröskuldur og við erum ekki eina fólkið sem glímir við þetta. Við fórum hratt í vinnsluna en aðrir gera sér grein fyrir erfiðleikunum og fara ekki út í ákveðna starfsemi.“

Hæg endurnýjun

Svavar Pétur segist hafa fengið góð viðbrögð við bréfinu og þingmenn úr flestum flokkum hafa svarað honum. Þeir geri sér grein fyrir hversu stór vandamál sé um að ræða. „Rafmagnið er til vandræða hjá öðrum en þeim sem stundi einfaldasta sauðfjárbúskap.“

Þórunn Egilsdóttir, þingmaður frá Vopnafirði, tók málið upp á Alþingi. Í máli hennar kom fram að þótt allar heimtaugar séu tilbúnar fyrir þriggja fasa rafmagn sé enn um 30% háspennukerfisins einfasa.

„Þrátt fyrir að öll endurnýjun kerfisins síðastliðin 24 ár hafi miðast við þriggja fasa kerfi er staðan þessi.“ Hún kallaði eftir metnaðarfullum aðgerðum til að styðja við atvinnulífið.

Spurt um áætlanir

Haustið 2012 voru um 1800 heimili í dreifbýli án aðgangs að þriggja fasa rafmagni. Jóhanna María Sigmundsdóttir lagði um daginn fram á Alþingi fyrirspurn til iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hve mörg sveitarfélög séu að öllu eða mestu leyti án þriggja fasa rafmagns, hverjar áætlanir séu um þriggja fasa rafmagn og hvort það gangi eftir að allt landið verði með þriggja fasa rafmagni árið 2035. Þá spurði hún um áætlanir um þriggja fasa væðingu samhliða því að ljósleiðaravæða landið fyrir 2020. Svar hafði ekki borist þegar Austurglugginn fór í prent.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar