Erfitt fyrir einstaklinga að reka dagvöruverslanir

Núverandi eigendur kjörbúðarinnar Kauptúns á Vopnafirði hafa sett verslunina á sölu og ákveðið að hætta rekstri hennar í sumar af persónulegum ástæðum. Þeir segja rekstrarumhverfi minni kjörbúða erfitt.

„Þetta er af persónulegum ástæðum. Það býr ekkert annað að baki. Þetta er bara ákvörðun sem við tókum,“ segir Árni Róbertsson sem farið hefur fyrir Kauptúni frá því á haustdögum árið 1988.

Verslunin var sett á sölu í byrjun apríl og núverandi starfsfólki sagt upp. Uppsagnirnar miðast við 1. júlí. „Við göngum með hreint borð frá öllu, við erum ekki á leið í gjaldþrot,“ segir Nikulás, sonur Árna en hann og bróðir hans Steingrímur hafa staðið í rekstrinum með föður þeirra síðustu misseri.

Aðspurðir segja feðgarnir ekkert að frétta af sölu rekstrarins, aðeins að málin séu í skoðun. Fyrst núna sé hreyfing á hlutunum, allt hafi legið í láginni meðan Covid-19 faraldurinn var í rénum og samkomubann í fullu gildi.

Að auki hafa þeir hafa í rúmt ár rekið sjoppuna á Vopnafirði sem er í eigu N1. Þeir hyggjast hætta einnig hætta rekstri hennar í sumra og hafa sagt upp samningi sínum.

En þótt ákvörðunin um að hætta rekstri Kauptúns sé af persónulegum ástæðum fara þeir ekki í grafgötur með að erfitt sé að vera lítill aðili á matvörumarkaði sem kominn sé undir stórar keðjur á landsvísu.

„Hagkvæmni stærðarinnar gengur fyrir öllu. Ég hef verið svo grófur að segja að mér finnist vitlaust gefið. Þetta er slagur alla daga að vera svona lítill,“ segir Árni. „Það er eiginlega ekki pláss fyrir litla manninn á markaðinum lengur,“ bætir Nikulás við.

Næstu lágvöruverðsverslanir við Vopnafjörð eru á Egilsstöðum og Akureyri. Þekkt er að Vopnfirðingar hafa oft keypt þar inn fyrir heimilið. „Við höfum aldrei velt okkur upp úr því. Við höfum bara hugsað um hvað við gerum sjálf. Það er ekkert óeðlilegt við að fólk nýti tækifærið ef það er á ferðinni í innkaup.“

Segja má að Kauptún sé síðasta verslun einstaklinga á Austurlandi en nokkur ár eru síðan Nesbakki í Neskaupstað hætti. Nokkrar slíkar verslanir eru eftir á landsbyggðinni, meðal annars á Raufarhöfn og Sauðárkróki. Á Kópaskeri og Borgarfirði eystra eru einnig einkareknar verslanir sem hafa hlotið styrk frá ríkinu.

„Ég veit ekki hvort það verði pláss fyrir einstaklinga í þessu framvegis. Ég sé fyrir mér að þegar samfélögin eru komin niður fyrir ákveðna stærð þá verði verslunarreksturinn eitthvað sem sveitarfélagið eða sjóðir eins og á vegum Brothættra byggða komi að,“ segir Árni.

Sem stendur er því óvissa um hvort dagvöruverslun verði á Vopnafirði eftir 1. júlí og með hvaða hætti. „Ég skil að menn hafi áhyggjur af stöðunni en við höfum ekki heyrt neitt neikvætt í okkar garð. Ég held að fólkið hér sýni okkur skilning,“ segir Nikulás.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.