Eru varmadælur svarið á köldum svæðum?
Stór hluti Austurlands flokkast sem kalt svæði, sem þýðir að heitavatnsuppsprettur eru of fjærri til að hægt sé að nota þær til húshitunar. Húshitun er líka dýrari á þessum svæðum. Varmadælur hafa víða gefið góða raun til að ná niður hitunarkostnaði.Varmadælur nýta náttúrulegan varma sem grunn á móti yfirleitt rafkyndingu. Þær eru í fjórum megin flokkum: jarðvarmadælur sækja hita í jörðina til að hita vatn, loft-í-vatn sækja varma í útiloft til að hita vatn, loft-í-loft sækja varma í útiloft og skila beint í inniloftið og vatn-í-vatn nýta volgt vatn til sem grunn.
Flestar varmadælurnar eru vel virkar til hitunar, jafnvel þá daga sem frost er úti. Eins geta varmadælurnar nýst til að kæla hús á heitum dögum.
Varmadælan getur borgað sig hratt upp
Tveir aðilar sem Austurglugginn hefur rætt við og hafa notað varmadælu til kyndingar um nokkurra ára skeið í stað beinnar rafhitunar, staðfesta sannarlega að reikningarnir hafi lækkað við þau skiptin. Báðir þessir aðilar eru með loft í loft dælur sem taka kalt loft utan frá til hitunar innanhúss. Hvorugur aðilinn vildi fullyrða hvort um hundrað þúsund krónur til eða frá væri að ræða, en sannarlega væri sparnaðurinn drjúgur á ársgrundvelli umfram það sem áður hafði verið þegar slík dæla var ekki til staðar.
Hér ber að hafa hugfast að þó sparnaður sé drjúgur og að ódýrustu varmadælur úr næstu verslun geti borgað sig upp á tólf mánuðum þá er bilanatíðni þessara ódýrustu dæla nokkuð há. Betri tegundir sem lengur endast kosta tvöfalt til þrefalt meira að jafnaði en þær endast gjarnan í 15 til 20 ár, vandræðalítið samkvæmt erlendum úttektum.
Miðað við þá endingu og tölur frá Byggðastofnun gæti slík dæla borgað sig upp á þremur árum og sparað húseigandanum allt að tveimur milljónum króna aukreitis á líftímanum. Þar er ótalinn hugsanlegur aukaávinningur ef um er að ræða varmadælu með innbyggðum vatnskút sem tryggir allt að 200 lítra af heitu vatni til heimilisnota. Flest okkar munar um minna þó hér vanti vissulega kostnaðinn við uppsetningu slíks búnaðar.
Varmadælur víða á Austurlandi
Fyrir um áratug var gert átak í að koma upp varmadælum í Fljótsdal. Á Fljótsdalshéraði hefur verið rætt um hvort HEF veitur gætu haft milligöngu um varmadælur í dreifbýli.
Á Seyðisfirði hafa varmadælulausnir verið til skoðunar þar sem til stendur að leggja niður fjarvarmaveituna. Stór miðlæg varmadæla sem leysa myndi fjarvarmaveituna af hólmi hefur til þessa verið talinn fýsilegasti kosturinn. Þegar Rarik ætlaði fyrst að loka fjarvarmaveitunni bauðst fyrirtækið til að styrja húseigendur á Seyðisfirði til að koma upp varmadælum.
Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF veita, segir fyrirtækið ekki hafa metið fýsileika þess að koma upp varmadælum þar sem hitaveita er ekki aðgengileg. Hann tekur þó undir að sparnaður geti náðst fram með varmadælunum, sérstaklega með styrkjum Orkusjóðs, sem styrkir umhverfisvæna orkuöflun en varmadælurnar heyra undir þá flokkun.
Árlegur hita- og rafmagnskostnaður
Dreifbýli án hitaveitu: 317.000Dreifbýli með hitaveitu: 230.000
Þéttbýli án hitaveitu: 298.000
Þéttbýli með hitaveitu: 226.000
Dreifbýli með varmadælu: 218.000
Þéttbýli með varmadælu: 200.000
Tölur frá Byggðastofnun fyrir árið 2023. Miðað er við tiltekna viðmiðunareign.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.