Eskja og Brim í samstarf um makrílveiðar
Útgerðarfélögin Eskja og Brim hafa ákveðið að vinna saman að veiðum á makríl í sumar. Skip félaganna landa síðan í sínum heimahöfnum á Eskifirði og Vopnafirði. Svanur RE var fyrst þeirra í land á Vopnafirði með um 860 tonn seinni partinn í gær.Ingimundur Ingimundarson, útgerðarstjóri uppsjávarveiðiskipa Brims, segir byrjunina á allan hátt hefðbundna. Mikil áta sé í fiskinum og veiði róleg. Síðan hafi verið byrjunarörðugleikar í vinnslunni, sem sé hefðbundið og ekkert komið sem ekki áður hafi verið leyst úr.
Landa hjá sínum vinnslum
Það sem er nýtt við veiðarnar er að skip Brims: Svanur, Víkingur og Venus, eru í samstarfi við skip Eskju: Aðalstein Jónsson og Jón Kjartansson. Skipin veiða hvert í sínu lagi en aflanum er komið í eitt þeirra sem siglir í land.
„Í fyrra vorum við með þrjú skip og Eskja líka en þar hefur Guðrúnu Þorkelsdóttur verið lagt og veiðarnar verða erfiðari þegar skipin eru tvö. Það var samþykkt af áhöfnum allra skipanna að prófa þetta. Það munar að vera alltaf með þrjú skip á veiðum. Þau koma þá hraðar inn og um leið ferskari fiskur.“
Samherji og Síldarvinnslan hafa átt í slíku veiðisamstarfi síðustu ár með góðum árangri. Samherji er hins vegar ekki með uppsjávarvinnslu þannig óumdeilt er að þau skip landa í Neskaupstað. Eskja og Brim eru hins vegar með sitt hvora vinnsluna í nágrenninu, Eskja á Eskifirði og Brim á Vopnafirði.
„Uppleggið í samstarfinu eru veiðarnar. Laun sjómanna ráðast af þeim. Öll skipin eru með áþekkar veiðiheimildir þannig að í heildina er Brim með um 60% en Eskja með 40%. Síðan tökum við okkar skip inn til Vopnafjarðar og þeir sín til Eskifjarðar,“ útskýrir Ingimundur.
Mikil áta á svæðinu
Skipin héldu fyrst í Smuguna þar sem Svanur fékk sinn afla. Skipin voru þar í um einn og hálfan sólarhring en síðasta sólarhringinn var veiðin mjög dæm. Þau færðu sig því yfir í íslensku lögsöguna, um það bil miðja vegu milli Íslands og Færeyja, þar sem Beitir NK hafði verið á veiðum.
„Þau veiddu um 460 tonn í gær. Veiðin var síðan lélegri í nótt, eins og hefur verið. Það er mikil áta á svæðinu og erfitt að átta sig á hvar í henni makríllinn er. Vonandi glæðist veiðin fljótlega,“ segir Ingimundur.
Síðan Svanur sigldi í land hafa skipin veitt um borð í Jón Kjartansson. Hann kemur því næst í land og er vonast til að hann verði á Eskifirði í fyrramálið.
Mynd úr safni.