Eskja og Loðnuvinnslan falla frá málssókn vegna makrílkvóta

Eskja á Eskifirði og Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði eru meðal fimm útgerðarfyrirtækja sem ákveðið hafa að falla frá fyrirhugaðri málssókn á hendur íslenska ríkinu vegna úthlutunar veiðiheimilda á makríl. Ákvörðunin er tekin í ljósi heimsfaraldurs covid-19 veirunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækin sendu frá sér seinni partinn í dag.

Í byrjun desember 2018 kvað Hæstiréttur upp tvo dóma þar sem viðurkennd var skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna fjártjóns sem tvær útgerðir í Vestmannaeyjum töldu sig hafa orðið fyrri með því að skipum þeirra var á grundvelli reglugerða úthlutað minni aflaheimildum í makríl árin 2011-14 en skylt var samkvæmt lögum.

Á grundvelli þessara dóma höfðuðu sjö útgerðarfélög mál á hendur íslenska ríkinu og kröfðust skaðabóta því þau hefðu orðið fyrirtjóni vegna rangar úthlutunar makrílkvóta á árunum 2011-2018.

Á Alþingi fyrir páska skýrð sjávarútvegsráðherra frá því að samanlagðar kröfur fyrirtækjanna næmu um tíu milljörðum króna. Í hópnum voru tvö austfirsk útgerðarfélög, Eskja og Loðnuvinnsla. Eskja átti næst hæstu einstöku kröfuna upp á rúma tvo milljarða en Loðnuvinnslan fór fram á að fá greiddan rúman milljarð.

Þau eru meðal þeirra fimm félaga sem nú hafa fallið frá málssókninni en hin eru Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja og Skinney-Þinganess. Eftir standa kröfur Vinnslustöðvarinnar í Vestmanneyjum og Hugins ehf., upp á tæpa tvo milljarða króna.

Kröfur fyrirtækjanna hafa mælst illa fyrir eftir að frá þeim var greint og meðal annars verið gagnrýndar af bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra.

Í yfirlýsingu útgerðanna fimm er áréttað eð ekki hafi enn verið dæmt um fjárhagslegt tjón þeirra. Það hafi reyndar ekki skipt mestu máli, heldur að settum reglum væri fylgt. Það eigi við um fyrirtæki, einstaklinga og stjórnvöld og sé einn af grundvallarþáttum réttarríkisins.

Hins vegar hafi heimsfaraldurinn haft víðtæk áhrif á ríkissjóð og allt íslenskt samfélag. Nú verði allir að leggja lóð á vogarskálar og því hafi útgerðarfélögin fimm ákveðið að falla frá kröfum á hendur íslenska ríkinu vegna ágreinings um úthlutun aflaheimilda í makríl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar