„Þetta húsnæði hefur rústað lífi okkar“

Þriggja barna móðir á Egilsstöðum segir sig og börn sín þrjú hafa orðið fyrir alvarlegu, varanlegu heilsutjóni af því að búa í húsnæði á vefum sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs sem svartur myglusveppur er að eyðileggja. Hún ásakar sveitarfélagið og starfsmenn þess fyrir að hafa dregið lappirnar í málinu.

 

margret_andresdottir.jpgSaga Margrétar Andrésdóttur er sögð í Austurglugga vikunnar. Sveitarfélagið Fljótsdalshérað útvegaði henni leiguíbúð í Miðgarði 5b fyrir um fimmtán mánuðum.

Hún segir fyrri íbúa hafa kvartað undan ástandi íbúðarinnar, þar sem svartur myglusveppur ræður ríkjum og göt eru í veggjum sem meindýr ferðast um, án þess að nokkuð hafi verið að gert. Margrét hefur gert það nokkrum sinnum sjálf undanfarna mánuði án viðbragða. „Þeir vissu af þessu með íbúðina.“

Hún segist hafa fengið þau viðbrögð hjá fasteignafulltrúa sveitarfélagsins framan af að ekki væru til peningar til að laga húsið. Hann hafi einu sinni sent meindýraeyði sem hafi sprautað hluta hússins.

Í byrjun maí ákvað hún að flytja úr húsinu. „Ég vissi þegar hér var komið við sögu að við vorum öll orðin veik af því að vera þarna og mér hafði sterklegra verið ráðið frá því að fara inn fyrir dyr íbúðarinnar framar.“

Starfsmaður bæjarins hefur nú dæmt hluta hússins ónýtan. Búslóð Margrétar var borinn út í seinustu viku en hún er mest ónýt.

„Sófarnir eru ónýtir, rúmin ónýt, allar bækur og myndaalbúm, spil barnanna, bangsar, eiginlega allt dót dóttur minnar, þessu er öllu búið að henda.Þau eiga engin leikföng. Við eigum ekki neitt sérstakt lengur.“

Í svari bæjarstjóra til blaðsins segir að ekki sé enn hægt að fullyrða að vandamál Margrétar megi rekja til einhvers í húsnæðinu það verði skoðað.

Margrét er á móti sannfærð og hefur fengið nóg.

„Þetta er búið að vera martröð. Ég er búin að missa flest af því sem ég á. Ég er komin með sveppinn í blóðið og má til dæmis aldrei framar í lífinu fara í útilegu, eða vera þar sem er mikill raki. Ég má aldrei eignast notaða hluti sem gætu verið með einhverju sem gera mig veika. Dóttir mín ælir kvölds og morgna af kvíða. Þetta húsnæði hefur rústað lífi okkar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar