Fækka nefndum Fjarðabyggðar úr sjö í fjórar

Vinna er hafin við að fækka fastanefndum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar úr sjö í fjórar. Skipulags- og framkvæmdamál hafa verið sameinuð á ný, innan við tveimur árum eftir að verkefnunum var skipt milli tveggja nefnda. Forseti bæjarstjórnar segir nýtt nefndaskipulag betur í takt við sviðsskiptingu sveitarfélagsins.

Hluti breytinganna var samþykktur af bæjarstjórn í janúar en þar sem ekki er hægt að samþykkja breytingar á nefndum fram í tímann bíður síðasti hlutinn vors.

Þær breytingar sem nú hafa tekið gildi eru í fyrsta lagi sameining málefna safna og menningar undir einni stofnun. Starfsmannafjöldi yfirstjórnarinnar er óbreyttur en einn forstöðumaður er núna yfir báðum málaflokkum með verkefnastjóra yfir hvoru sviði. Sama nefndin hefur verið yfir báðum málaflokkum en fulltrúum í henni fækkar úr fimm í þrjá.

„Hlutverk safnanna breytist ekki en við sjáum þó fyrir okkur að flétta þeim betur saman við menningarlífið,“ segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar. Við þessa breytingu færðust bókasöfn frá safnastofnuninni til skólanna á hverjum stað fyrir sig. Þeirri breytingu var mótmælt af bókasafnsfólki.

Hvaða nefndir sameinast?


Í janúar varð einnig til skipulags- og framkvæmdanefnd. Hún tekur við verkefnum skipulags- og umhverfisnefndar annars vegar og framkvæmda- og veitunefndar hins vegar. Þær nefndir urðu til að loknum sveitastjórnarkosningum árið 2022 í stað eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar.

Jón Björn segir að breytingin þá hafi verið afráðin til að létta á vinnunni í ESU-nefndinni sem hafi verið mjög mikil. Nú sé breytt í samræmi við skiplag sviða Fjarðabyggðar frá 2019. Sú breyting verður þó að sjö fulltrúar sitja í nefndinni í stað fimm áður og reiknað er með fleiri fundum.

Þriðji áfangi breytingarinnar verður í kringum 1. maí þegar nefndirnar þrjár sem vinna með fjölskyldusviði: íþrótta- og tómstundanefnd, fræðslunefnd og félagsmálanefnd, sameinast í fjölskyldunefnd. Fyrirkomulag hennar verður hið sama og hjá skipulags- og framkvæmdanefndinni. Jón Björn segir að ákveðið hafi verið að bíða með sameininguna á meðan núverandi nefndir ljúki umfjöllun um stór mál sem þær hafa til meðferðar.

Nefndirnar endurspegli sviðin


Deloitte skilaði í lok síðasta árs skýrslu um stjórnkerfi Fjarðabyggðar þar sem lagðar voru fram tillögur til að auka skilvirkni. Jón Björn segir að þær athugasemdir hafi verið teknar með í reikninginn en sviðsskiptingin vegi þyngra í breytingunum núna.

„Deloitte hvatti til þess að hlutverk yrðu skýrð og vonandi styðja þessar breytingar við það. Breytingin byggir þó frekar á fenginni reynslu af starfsemi sviðanna, sem við höfum verið að reyna að styrkja undanfarin ár. Við höfum trú á að þetta styrki þau.“

Engar breytingar á launakjörum fulltrúa


Eftir breytingarnar er skipulagið í Fjarðabyggð orðið líkara því sem það er í nágrannasveitarfélaginu Múlaþingi. Við tilurð þess var nefndum fækkað og þær taka mið af sviðum. Þar var einnig rætt um að með færri en umfangsmeiri nefndum gæfist tækifæri til að bæta starfskjör sveitarstjórnarfólks þannig það gæti frekar einbeitt sér að stjórnmálunum.

Jón Björn segir það ekki hugsunina í Fjarðabyggð því engar breytingar verði á þóknun kjörinna fulltrúa. Einhver sparnaður geti orðið af færri nefndum. Kostur sé þó að hafa bæjarfulltrúa í nefndum til að geta betur fylgt málum eftir.

Ljóst er að við breytingarnar hafa einnig áhrif á skiptingu flokkanna í meirihluta, Fjarðalista og Framsóknar, á formennsku í nefndum. Þuríður Lillý Sigurðardóttir, Framsóknarflokki er formaður skipulags- og umhverfisnefndar en Birta Sæmundsdóttir, Fjarðalista, hefur verið formaður menningar- og safnastofnunar. Jón Björn segir að staðan verði frekar skoðuð við tilurð fjölskyldunefndar í vor.

Engar breytingar verða á hafnarstjórn sem telst fjórða fastanefndin.
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar