„Fáránlega mikið af óskilafatnaði yngstu nemenda Fellaskóla“

Fleiri kíló af óskilafatnaði liggja eftir yngstu nemendurna í Fellaskóla í Fellabæ nú þegar skólaárinu er senn að ljúka. Það fáránlega mikið magn óskilafatnaðar aðeins 37 nemenda eitt einasta skólaár að mati starfsmanns skólans.

Töluverða athygli vakti á fésbókarvef skólans um mánaðarmótin þegar Kristjana Ditta Sigurðardóttir, ritari skólans, birti myndskeið af þeim aragrúa óskilafatnaðar sem aðeins yngstu nemendur skólans hafa gleymt og enginn hirt um á því skólaári sem senn lýkur en yngstu nemendur skólans telja aðeins 37 einstaklinga.

Lítill áhugi á endurheimt

Áköll skólans um að foreldrar kanni hvort börn þeirra hafi skilið fatnað sinn eftir til að grynnka á áður en farið verður með, mikil til nýlegan fatnaðinn, til Rauða krossins hafa að mestu fallið á dauf eyru að sögn Kristjönu. Á þremur vikum rúmum hafa engir foreldrar rekið inn nefið til að kanna hvort fatnaður tilheyri sínu barni eða börnum.

„Þetta er afar miður því fatnaður kostar sitt og í hrúgunni er töluvert af svokallaðri merkjavöru sem flestir greiða enn meira fyrir. Ekki bætir heldur úr skák að nánast allar flíkurnar eru ómerktar með öllu og því ómögulegt fyrir okkur í skólanum að láta tiltekna foreldra vita af þessu. Magnið af þessum fína fatnaði, og ekki sér neitt á velflestum þeirra sem gefur til kynna að þær séu nýlegar, var svo mikið orðið að mér blöskraði og setti því myndir inn á samfélagsvefinn okkar. En viðbrögðin hafa nánast verið engin. Við fengum jú töluvert af þessum "lækum" við færsluna en enginn komið til að kanna hvort barnið þeirra eigi hugsanlega eitthvað í þessari stóru fatahrúgu. Það búið að brýna fyrir öllum í mörg ár að vera nýtinn og sjálfbær en þau skilaboð virðast ekki skila sér sem skyldi.“

Fjarri því einsdæmi

Að foreldrar eða forráðamenn geri sér ekki sérstakt far um að gæta þess að börn týni ekki dýrum fatnaði í skólanum er ekki nýtt af nálinni. Þvert á móti virðist vandamálið aukast fremur en hitt samkvæmt samtölum við nokkra skólastjórnendur austanlands.

Ein mest lesna grein Austurfréttar fyrir tæpu ári fjallaði einmitt um úttekt sem nemendur og kennarar Egilsstaðaskóla gerðu á grófu verðmæti þeirra óskilamuna sem þar voru skyldir eftir í skólalok en þar var einnig aðeins um óskilamuni yngstu bekkja að ræða.

Í ljós kom að verðmætin sem í óskilamunum yngstu bekkja þess skóla fólust nam um eða yfir 1,5 milljón króna. Drífa Magnúsdóttir, kennari við skólann, sagði á þeim tíma að hér væri um foreldravandamál að ræða því yfirleitt keyptu foreldrar bara nýtt þegar eitthvað týndist.

Aðeins 37 nemendur hafa þennan veturinn skilið allt þetta eftir í Fellaskóla í Fellabæ eftir einn skólavetur. Mynd Ditta Sigurðardóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar