Félagsleg virkni nauðsynleg eftir starfslok
Elín Díanna Gunnarsdóttir, dósent í sálfræði og deildarformaður við Háskólann á Akureyri, segir rannsóknir benda endurtekið til þess að félagsleg tengsl séu einn af þeim þáttum sem leiða til jákvæðrar aðlögunar við starfslok. Austurbrú, í samvinnu við stéttarfélög og ýmsa aðila á Austurlandi, stóð nú í febrúar fyrir námskeiði fyrir þá sem farnir eru að huga að starfslokum.
„Starfslok leiða óneitanlega til breytinga á lífi fólks og í erindinu fjallaði ég um andlega og félagslega þætti sem gott er að huga að á þessum tímamótum. Ég legg samt alltaf upp með spurninguna: Hvernig horfum við á starfslok? Eru þau endalok, upphaf að einhverju nýju, eða lítum við jafnvel á þau sem enn eitt skrefið sem við tökum á lífsleiðinni? Að því sögðu þá virðist flest benda til þess að fólk aðlagist starfslokum betur þegar það hefur undirbúið sig á einhvern hátt,“ segir Elín Díanna.
Nauðsynlegt að skapa áframhaldandi tækifæri til samskipta
Að hverju þarf helst að huga varðandi andlega og félagslega þáttinn í tengslum við starfslok? „Ég tel ágætt að byrja á því að spyrja hvað starfið gefur okkur í dag. Fyrir utan tekjur, þá er ýmislegt annað sem við fáum út úr starfinu. Þegar ég spyr þessarar spurningar í erindinu mínu, þá er næstum alltaf fyrsta svarið að vinnan veiti tækifæri fyrir félagsleg samskipti. Það er nefnilega málið, vinnan veitir tækifæri til þessara óskipulögðu félagslegu samskipta. Við þurfum ekkert að leggja neina sérstaka vinnu í að skapa tækifæri til samskipta. Þegar að starfslokum kemur þá breytist þetta og ég legg mikla áherslu á það í mínu erindi að við gerum okkur grein fyrir þessu og veltum því fyrir okkur hvernig við ætlum að takast á við þessar breytingar. Hvað ætlum við að gera til að skapa okkur áframhaldandi tækifæri til samskipta við aðra? Félagslegi þátturinn í okkar lífi er að sjálfsögðu ekki síður mikilvægur á þessu æviskeiði en öðrum.“
Hvað hefur hjálpað hingað til?
Elín Díanna segist einnig leggja mikla áherslu á að fólk velti því fyrir sér hvernig það hefur tekist á við hinar ýmsu áskoranir lífsins. „Hvað fólki finnst hafa hjálpað og hvað hefur reynst því sérlega erfitt. Við höfum tilhneigingu til að beita þeim aðferðum sem við höfum notað áður þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum eða breytingum almennt. Fyrri hegðun er því ágætis vísbending um það sem er líklegt að við gerum síðar. Þess vegna getur það hjálpað okkur verulega að velta þessu aðeins fyrir okkur og þannig getum við undirbúið þessar væntanlegu breytingar.“
Sex erindi á dagskránni
Námskeiðið var haldið á Egilsstöðum og á Reyðarfirði og var endurgjaldslaust fyrir þátttakendur, óháð stéttarfélagi. Dagskráin var fjölbreytt og samanstóð af sex erindum. Forstöðumaður réttindasviðs hjá Stapa Lífeyrissjóði kynnti lífeyrisréttindi hjá sjóðsfélögum Stapa, sérfræðingur frá ASÍ fór yfir almannatryggingar, sálfræðingur fjallaði um andlegar og félagslegar hliðar þess að hætta að vinna og Heilbrigðisstofnun Austurlands var með heilsueflandi fyrirlestur. Auk þess kynntu fulltrúar frá félögum eldri borgara á svæðinu sína starfsemi og Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað kynntu þann hluta af sinni þjónustu sem snýr að eldri borgurum.
Fundu fyrir þörfinni
Guðlaug Björgvinsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, skipulagði og hafði umsjón með námskeiðinu, sem er það fyrsta sinnar tegundar innan stofnunarinnar. „Við fundum þörf fyrir fræðslu af þessu tagi í samfélaginu, en við erum alltaf að leita leiða við að koma til móts við fræðsluþarfir á svæðinu. Þátttakan var enn meiri en við áttum von á, eða rúmlega þrjátíu manns fyrri daginn á báðum stöðum, en eitthvað færri seinni daginn,“ segir Guðlaug sem er ánægð með hvernig til tókst. „Ég er mjög sátt með framkvæmdina og geri fastlega ráð fyrir að við tökum þennan bolta lengra og höldum áfram með þetta, en starfslok eru eitthvað sem við þurfum öll að kynna okkur fyrr eða síðar. Framkvæmdin gekk vel og þetta hefði aldrei geta orðið að veruleika án þátttöku góðra aðila á svæðinu, en námsskeiðið er styrkt af Afli Starfsgreinafélagi, VR, Fjarðabyggð, Fljótsdalshéraði, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Austurbrú“ segir Guðlaug.
Námskeið sem þetta jákvætt framtak
Elín Díanna segir námskeið sem þetta vera afar jákvætt framtak. „Þetta hvetur fólk til að fara að huga að því hvernig það vill hafa sín starfslok og hvaða skref séu nauðsynleg að taka til að upplifunin verði sem jákvæðust. Það fólk sem ég hitti á námskeiðum eins og þessum er almennt mjög duglegt að huga að þessum þáttum. Það er farið að spyrja sig að því hvernig það vilji lifa lífinu á þessu æviskeiði. Ekki það að fólk sé almennt með einhverja sérlega fastmótaða mynd af því hvernig lífið eigi að verða, heldur meira að það fer að hugsa um það hvaða þættir eru þeim mikilvægir og hvernig það vill reyna að koma þeim fyrir í lífinu eftir starfslok.“