Ferðalangar strandaglópar í Álftafirði

Björgunarsveitin Bára á Djúpavogi hefur verið kölluð út til aðstoðar ferðalöngum í Álftafirði sem treysta sér ekki áfram vegna veðurs. Á Vopnafirði hefur björgunarsveitin Vopni þurft að hefta fok.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu eru þrír bílar strand í Álftafirðinum. Þar er mikið rok og grjótfok.

Nokkuð hefur verið um verkefni hjá sveitinni á Djúpavogi í morgun vegna foks á lausamunum. Sveitinni þar og á Höfn í Hornafirði hafa frá í nótt borist minnst þrjú útköll vegna ferðalanga sem eru fastir á veginum þar á milli. Vegurinn um Hvalnesskriður er merktur ófær vegna óveðurs.

Þá hefur björgunarsveitin Vopni á Vopnafirði fengið nokkur verkefni síðasta klukkutímann sem snúast aðallega um að hemja þakplötur og þakskífur sem eru að fjúka.

Til viðbótar þessu hefur Austurfrétt spurnir af garðskúr á Egilsstöðum sem fór í sundur í hvassviðrinu í morgun.

Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar