Fágætur gripur fannst á Skriðuklaustri: Örvaroddur frá varðmönnum biskups

orvaroddur_klaustur_0008_web.jpgFornleifafræðingarnir sem vinna að uppgreftri Skriðuklausturs fundu nýverið örvarodd úr lásboga í rústunum. Talið er að oddurinn sé frá varðmönnum biskups. Slík vopn voru algeng til dýraveiða erlendis en engar heimildir er um slíka notkun hérlendis.

 

„Þetta er mjög merkilegur gripur. Ég veit ekki til þess að það hafi fundist mörg vopn frá miðöldum og ég veit ekki um neinn örvarodd. Það er merkilegt því svona vopn voru tiltölulega algeng á 15. og 16. öld,“ segir Steinunn Kristjánsdóttir sem stýrir uppgreftrinum á Skriðuklaustri.

Steinunn telur nær öruggt að vopnið sé ættað frá sveinum Skálholtsbiskups frekar en bræðrunum á Klaustri.

„ Veraldlegir höfðingjar og biskupar áttu vopnabúr og voru með verði, sem kölluðust sveinar. Það eru til heimildis um bardaga á þessum tíma sem þeir lentu í. Það er ekki vitað til þess að klaustrin hafi sérstaklega átt vopnabúr og það er ekkert sem bendir til þess að slíkt búr hafi verið hér eða bræðurnir átt vopn. Líklega hafa biskupssveinarnir komið hingað og tapað vopnum sínum með einhverjum hætti en það eru heimildir um að Skálholtsbiskups hafi oft verið hér á ferð.“

Sænski fornleifafræðingurinn Fredrik Wirbrand, sem í  sumar hefur unnið á Klaustri og er sérhæfður í miðaldavopnum, segir algengt að slík vopn finnist þarlendis. Þau hafi þó verið notuð til annarra hluta en hér.

„Það er auðvelt að sjá að þetta tilheyrir ör úr lásboga. Oddurinn er aðeins kassalaga sem hentar vel til að skjóta í gegnum hringabrynjur. Þessi oddur er úr kopar sem er sjaldgæft. Vanalega voru þeir úr járni sem er öflugri málmur en koparinn var ódýrari.

Lásbogar voru vinsælir í Svíþjóð þar sem allir gengu til skógar og veiddu sér til matar. Á Íslandi var ekkert til að veiða,“ segir Wirbrand og Steinunn tekur undir þá álytun hans.

„Það eru engar heimildir um að lásbogar hafi verið notaðir til að veiða eða lóga dýrum. Hér voru haldin húsdýr en nær ekkert var um villt dýr.“
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.