Finna að þunginn og þreytan er að aukast

Erfiðari mál eru farin að berast inn á borð hjá félagsþjónustu austfirskra sveitarfélaga og öðrum sem annast sálgæslu og andlegan stuðning á svæðinu. Ljóst er að þreytu er farið að gæta í fjórðungnum þótt Austfirðingar hafi að mörgu leyti sloppið vel í Covid-19 faraldrinum.

„Við höfum verið heppin hér eystra að því leyti að við höfum búið við meira frelsi en margir aðrir í þessum faraldri, bæði því hér giltu vægari takmarkanir framan af þessari bylgju en líka því hér hefur verið lítið um smit.

Þótt hér hafi komið upp smit í vikunni þá virðist það ætla að fara betur en á horfðist í fyrstu, þótt enn sé of snemmt að segja til um það,“ segir Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur í Austurlandsprófastdæmi, en prestarnir eru í samráðshópi um áfallahjálp sem er hluti af almannavörnum á svæðinu.

Þeim sem leið illa líður verr

Samráðshópurinn fundaði í morgun þar sem farið var yfir stöðuna í fjórðungnum. „Um allt land gætir ákveðinnar þreytu. Við finnum öll fyrir því að þetta er orðinn langur tími og við finnum áhrifin. Það er erfiðara að halda einbeitingu þegar ákveðnir hlutir eru ekki í sínum venjulega takti. Því mikilvægara er að halda taktinum í deginum, búa til sína rútínu og gera það við getum til að huga að eigin heilsu, andlegri og líkamlegri.

Það er kominn aukinn þungi í ákveðin tilvik. Þeim sem leið illa fyrir líður enn verr. Málin eru ekki endilega orðin fleiri en þau eru orðin þyngri, til dæmis hjá félagsþjónustu og sálfræðingum HSA, þótt við vitum ekki fyrir víst hversu mikið það tengist faraldrinum. Svo er líka erfiðara að vinna með fólki þegar það er takmarkað hægt að hittast, fjarfundabúnaður er auðvitað frábær en það er ekki það sama og hittast í eigin persónu.“

Áhyggjur af einangrun eldra fólks

Meðal þeirra sem hópurinn hefur sérstakar gætur á er eldra fólk. „Það á oft meira á hættu að einangrast. Allt sem það gerði vanalega til afþreyingar og til að láta sér líða betur er ekki í boði, til dæmis hefur sundlaugin verið mörgum mikilvæg. Dagþjónustan er vissulega opin í Hlymsdölum á Egilsstöðum en þar þarf að gæta að fjarlægðinni og nota grímu. Þau sem dvelja á hjúkrunarheimilum finna líka fyrir álaginu, því vegna ástandsins eru heimsóknir takmarkaðar, ekki hægt að fara út og lítil virkni í boði til að forðast hópamyndanir.“

Sigríður Rún segir ástandið líka reyna á aðstandendur. „meðal annars því það má bara einn fara í heimsókn og það verður alltaf að vera sá sami. Aðstaðan er því skrýtin fyrir þá sem komast ekki. Þetta ástand er meira lýjandi en margir hefðu haldið.

Það eru allir sammála aðgerðunum, það hefur sýnt sig að það verður að fara varlega. Fyrir viðkvæma hópa vill fólk frekar harðari reglur heldur en áhættuna en það er erfitt að vera í þessari stöðu. Við veitum því aðstandendum líka stuðning.“

Foreldrar styðji unglingana

En við þurfum líka að vera vakandi fyrir líðan þeirra sem eru í yngri hópum, því framhaldsskólanemar til dæmis fá ekki að mæta í skólann. „Við höfum verið að hafa samband við fólk í viðkvæmum hópum og það kemur í ljós að ástandið reynist til dæmis framhaldsskólanemum erfitt. Fjarnám er frábært en stór hluti af því að vera í skóla er samfélagið og félagslífið.

Við þessar aðstæður getur verið erfitt að halda rútínunni. Við sem foreldrar verðum að vanda okkur við að vera styðjandi en ekki fordæma að unglingurinn hangi inni í herbergi þegar ekki er mikið meira að gera. Allt sem okkur fannst sjálfsagt þegar við vorum í framhaldsskóla er ekki hægt núna.“

Ásakanir og dómar engum til góðs

Á þriðjudag greindist Covid-19 smit á Austurlandi, en sem komið er hefur það ekki breiðst út. Þá hefur heldur ekki tekist að rekja uppruna þess. Sigríður Rún minnir á að forðast verði dómhörku þegar smit komi upp.

„Það er ekki gagnlegt að vera með ásakanir eða fella dóma. Það ætlar sér enginn að smita neinn. Við verðum að vanda orðræðuna, það er ekki eins og veiran sé á ábyrgð ákveðinna einstaklinga.“

Reynir á þolið á aðventunni

Núverandi takmarkanir gilda til 2. desember. Þá verður aðventan hafin, en hún reynist mörgum erfið í venjulegu árferði. „Fólk hefur fjárhagsáhyggjur því það er dýr tími framundan og faraldrinum hefur fylgt kreppa. Síðan er sólarljósið að minnka og við vitum að skortur á því hefur áhrif. Markmið aðgerðanna er að við getum fagnað jólunum en það er ljóst að framan af verður aðventan öðruvísi en við höfum vanist.“

Sigríður Rún segir að nú reyni á þol þjóðarinnar. „Við Íslendingar erum mikil átaksþjóð, við tökum hlutina með trukki í stuttan tíma og gerðum það í vor. Nú reynir á þolgæði og úthald. Við stöndum okkur vel en það er ekki skrýtið að finna fyrir þreytu.“

Hún leggur þó áherslu á að faraldurinn hafi líka kennt okkur ýmislegt gott. „Við höfum lært hvað skiptir okkur máli í lífinu og við höfum lært að meta það einfalda. Við finnum hvað öll mannleg samskipti og tengsl skipta okkur miklu máli.“

Hvert á að hafa samband?

Gjaldfrjálst er að fara í viðtöl hjá prestum í fjórðungnum, en þeir eru meðal þeirra sem veita sálgæslu og stuðningsviðtöl. Það gera þeir óháð trúfélagsaðild eða lífsskoðunum. Upplýsingar um þá má nálgast á www.austurkirkjan.is.

Hægt er að óska eftir tíma hjá sálfræðingum HSA í síma 470-3000 auk þess sem hægt er að hafa samband við félagsþjónustu Fjarðabyggðar í síma 470-9000 og félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs í síma 470-0700.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar