Fjarðabyggð: Engin sátt að kippa burtu störfum og færa þau annað
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar mótmælir báðum frumvörpum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á kvótakerfinu. Hún lýsir áhyggjum sínum af áhrifum þess á atvinnulíf í sveitarfélaginu.
Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnarinnar í gær. Þar er lýst „þungum áhyggjum“ af tillögum í hinu svokallaða „minna kvótafrumvarpi“ og efni beggja frumvarpa ráðherrans mótmælt. Vísað er til harðrar gagnrýni fjölmargra hagsmunaaðila á frumvörpin og að ekki liggi fyrir mat á hagrænum áhrifum þeirra.
„Sýnt þykir að frumvörpin hafi í för með sér gríðarlega umbyltingu á sjávarútvegi og setja framtíð hans og um leið efnahagslega þýðingu í uppnám,“ segir í ályktunni.
Útvegsmenn í Fjarðabyggð kynntu í síðustu viku úttekt þar sem gert er ráð fyrir að 100 manns missi vinnuna ef aflaheimildir í sveitarfélaginu skerðist.
„Bæjarstjórn Fjarðabyggðar sér ekki að svokölluð 'sátt' í sjávarútvegsmálum náist með því að kippa burt störfum sjómanna og fiskvinnslufólks í Fjarðabyggð til að fara með þau eitthvað annað. Slíkt kemur engum til góða. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar vekur einnig athygli á áliti sérfræðings Lagastofnunar Háskóla Íslands, en þar var lýst yfir nýlega að lagafrumvarpið eigi sér fáa líka í flokki óvandaðra lagafrumvarpa á sviði íslenskrar fiskveiðistjórnar. „
Bæjarstjórnin hvetur því til þess að allir þeir sem að málunum komi setjist aftur að sáttaborði í haust.