Fjarðabyggð fór ekki að lögum við leyfisveitingu fyrir niðurrifi húss

Minjastofnun Íslands skoðar nú mál Naustahvamms 54 í Neskaupstað en húsið var nýverið brennt í æfingaskyni fyrir Slökkvilið Fjarðabyggðar. Álits Minjastofnunar var ekki aflað áður en eldur var borinn að húsinu eins og lög gera ráð fyrir.


„Húsið Naustahvammur 54 var byggt 1923 og því skylt að leita álits Minjastofnunar eins og lög kveða á um, en það var ekki gert,“ segir í svari Minjastofnunar Íslands við fyrirspurn Austurfréttar.

Samkvæmt lögum um menningarminjar ber eigendum húsa og mannvirkja sem njóta ekki friðunar en byggð voru 1925 eða fyrr að leita álits stofnunarinnar minnst sex vikum áður en þeir hyggjast breyta þeim, flytja eða rífa.

Eftir það hefur stofnunin fjögurra vikna frest til að skila álitinu. Hún hefur sett skilyrði um framkvæmdirnar eða gert tillögu um friðlýsingu.

Byggingarfulltrúar sveitarfélaga eiga að fylgjast með því að eigendur húsa leiti eftir álitinu og tryggja að það liggi fyrir áður en leyfi er veitt til framkvæmdanna. Þar skal tekið tillit til skilyrða stofnunarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Minjastofnun er málið þar í frekari athugun.

Húsið var brennt þriðjudaginn 26. apríl síðastliðinn. Það var á skilgreindu snjóflóðahættusviði og beið niðurrifs, að því er segir í frétt á vef Fjarðabyggðar sem birtist deginum áður. Það var nýtt til æfinga fyrir Slökkvilið Fjarðabyggðar síðustu dagana en var áður í eigu björgunarsveitarinnar Gerpis.

Í yfirlýsingu sveitarfélagsins til Austurfréttar eru hörmuð þau mistök sem gerði hafi verið við útgáfu byggingarleyfis vegna niðurrifs á Naustahvammi. Því miður hafi láðst að leita umsagnar Minjastofnunar eins og lög um menningarminjar geri ráð fyrir. Sveitarfélagið muni greina Minjastofnun frá málinu bréflega.

Frá æfingu slökkviliðsins í Naustahvammi. Mynd: Hlynur Sveinsson 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.