Fjarðabyggð: Ekki stórkostleg skerðing á þjónustu þótt engin loðna veiðist

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir að ekki verði stórkostlegur niðurskurður á þjónustu sveitarfélagsins þótt tekjur sveitarfélagsins dragist saman ef engin loðna veiðist á næsta ári.


„Minni tekjur þýða einfaldlega að þá þarf að aðlaga útgjöldin að þeim tekjuramma, en við munum ekki taka neinar dýfur í skerðingu á þjónustu sveitarfélagsins.

Þó tekjur dragist núna saman, munu þær koma upp á ný, en varfærin tekjuspá er þó lykilatriði þar sem útgjaldaramminn er miðaður við þær tekjur sem sveitarfélagið aflar,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri.

Að loknum rannsóknum í haust ráðlagði Hafrannsóknastofnun að engin loðna verði veidd á næsta ári. Fjarðabyggð er stærsta löndunarhöfn uppsjávarfiski og sveiflur í veiðum, sölu eða sterkara gengi krónunnar, eins og verið hefur, hafa neikvæð áhrif á útsvarstekjur sveitarfélagsins.

Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017, sem tekin var til fyrri umræðu í bæjarstjórn í síðustu viku, er gert ráð fyrir að útsvarstekjur þess hækki aðeins um 5% milli ára. Þegar hefur verið færð inn varúðarfærsla vegna lélegrar loðnuvertíðar í ár.

Páll bendir á að áhrifin séu bundin við útsvarið heldur hafnargjöld og óbeinar tekjur, svo sem frá fyrirtækum sem þjónusta sjávarútveginn.

Þar sem blikur eru á lofti verður lengri tíma tekin í umræðu um fjárhagsáætlunina en vanalega. „Við klárum aðra umræðu um hana 1.desember sem er nokkuð seinna en vanalega vegna þessara óvissu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.