Fjarðabyggð: Gaman að fá peppið þegar maður fer út í búð

Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað mætast í undanúrslitum spurningakeppninnar Útsvars í kvöld. Davíð Þór Jónsson segir það mikil virði að finna hvernig íbúar sveitarfélagsins standi að baki keppnisliðinu.


„Fyrst og fremst í þessu því þetta er gaman en það er sérlega gaman að finna hve sterkt byggðarlagið stendur að baki manni,“ sagði Davíð Þór í samtali við Austurfrétt í dag.

„Maður er peppaður áfram þegar maður fer út í búð. Það er komið til manns og sagt: „Þið stóðuð ykkur vel og standið ykkur áfram.“ Bæjarstjórinn hringdi áðan og óskaði okkur velgengni. Það er gaman að finna hvað bæjarbúar eru stoltir.“

Davíð Þór játar að það setji örlítið meiri pressu á frammistöðuna í kvöld að nágrannasveitarfélagið sé mótherjinn.

„Það hefði verið gaman ef liðin hefðu mæst í úrslitum en staðreyndum er sú að Austurland er komið í úrslitin. Nú er bara spurning hvort liðið verður fulltrúinn.

Það lýst ekki illa í mig að mæta Fljótsdalshéraði. Liðið er ekki ósigrandi og hefur tapað einu sinni í vetur. Við óttumst þau ekki.

Þetta er hins vegar hörkulið. Það er engin tilviljun að þau eru komin í undanúrslit en það er það heldur ekki hjá okkur.

Liðin sem eru eftir eru öll ámóta sterk. Þetta er spurning um hver er heppnastur með spurningar. Það liði sem er heppnara vinnur. Það er hægt að semja viðureign sem við myndum rústa en líka keppni sem myndi henta þeim.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.