Fjarðabyggð sækir um ríflega tíu milljónir úr styrkvegasjóði
Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur óskað eftir 10,5 milljónum króna úr styrkvegasjóði Vegagerðarinnar en þeim sjóði er ætlað að styrkja vegaumbætur á samgönguleiðum sem ekki falla lögformlega undir skilgreiningar á vegum.
Umsóknir Fjarðabyggðar voru samþykktar í skipulags- og framkvæmdanefnd sveitarfélagsins í síðustu viku en þær ná til fimm mismunandi verkefna að þessu sinni.
Umsóknarfrestur er liðinn og yfirfer Vegagerðin nú þær umsóknir sem bárust fyrir þetta ár og leggur tillögur sínar fyrir innviðaráðherra í kjölfarið. Slíkir styrkir eru aðeins í formi fjármagns en sveitarfélagið þarf sjálft að leggja til alla vinnu.
Víða vatnsskemmdir
Sótt var um 500 þúsund krónur til lagfæringar á veginum um Staðarskarð en sú leið var gerð akfær árið 1944, notuð til 1966 en hefur lítt verið sinnt síðan þá. Einnar milljónar króna styrk er einnig óskað vegna lagfæringar á veginum í Fannardal í Norðfirði sem illa fór í rigningum í haust en sú leið notuð bæði af útivistarfólki og skógræktaraðilum.
Til áframhaldandi vinnu við uppbyggingu brúarinnar yfir Hnausá í Norðurdal á Breiðdalsvík óskar Fjarðabyggð eftir 3,5 milljónum króna en verkið er þegar komið vel á veg. Vegspottinn út að Karlsskála er töluvert notaður af ferðafólki, veiðimönnum og bændum en um 500 þúsund krónur þarf til að lagfæra hann eftir vatnsskemmdir á síðasta ári.
Síðast en ekki síst sækir sveitarfélagið um 4 milljónir til endurnýjunar á brú utan við Reyki í Mjóafirði en leiðin sú er gjarnan notuð af veiðimönnum og bændum auk ferðamanna. Núverandi brú er talin ónýt með öllu.
Endurnýja þarf brúna utan við Reyki í Mjóafirði en til þess verkefnis er óskað fjögurra milljóna króna á þessu ári úr styrkvegasjóði.