Fjárfest fyrir 240 milljónir á Vopnafirði á árinu

Vopnafjarðarhreppur mun að óbreyttu eyða 240 milljónum króna í ýmis konar fjárfestingar í sveitarfélaginu á nýju ári. Mestur kostnaður er vegna lengingar hafnarkants en töluverð upphæð er eyrnamerkt æskulýðs- og íþróttamálum.

Við afgreiðslu sveitarstjórnar á fjárhagsáætlun þessa árs sem og áætlun áranna 2026 til 2028 kom fram að efnahagur hreppsins sé heilt yfir heilbrigður og gert sé ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu í bæði A- og B-hluta hreppsins í ár og þrjú næstu árin á eftir. Á yfirstandandi ári ætti niðurstaðan að vera jákvæð um 95 milljónir króna samkvæmt áætlununum.

Lenging hafnarkants er langstærsta verk hreppsins nú og næstu árin en Vopnafjörður greiðir minnihluta þess kostnaðar en Vegagerðin dekkar það sem upp á vantar. Greiðir hreppurinn 100 milljónir króna árlega fram til 2027 vegna þess.

Tæplega 70 milljónir fara til að hefja fyrri hluta endurgerðar þjónustuhúss við Selárlaug en síðari hluti verksins er á áætlun að ári liðnu. Einnig skal endurnýja sturtu- og sánaklefa í íþróttahúsi bæjarins á þessu ári. Rúmar 13 milljónir verða notaðar í nýja skólalóð grunnskóla og endurbætur á baklóð leikskólans og þá skal og ljúka við frágang gangstétta við Miðbraut og Hamrahlíð að austan.

Síðast en ekki síst eru 9 milljónir merktar endurbótum íbúða í Sundabúð en nákvæm úttekt á vatnslögnum þess húss stendur líka fyrir dyrum á næstunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar