Fjögur ný virkjunarsvæði á Austurlandi til skoðunar

Fjórir virkjunarkostir á Austurlandi eru meðal þeirra sem finna má í áfangaskilum Orkustofnunar vegna fjórða áfanga rammaáætlunar.

Aðeins ein vatnsaflsvirkjun er í hópnum, Hamarsvirkjun í Djúpavogshreppi sem Hamarsvirkjun ehf., dótturfélag Arctic Hydro, stendur fyrir. Áætlað er að virkjunin geti framleitt 60 MW.

Þrjú vindorkuver eru á listanum. Í fyrsta lagi er það 45 MW virkjun sem kennd er við Þorvaldsstaði, innsta bæ í Norðurdal Breiðdals. Stjórnarformaður Quadran er Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Í öðru lagi er vindorkuver í landi Klaustursels á Fljótsdalsheiði og yrði allt að 250 MW. Að baki henni stendur Zephyr Iceland sem er í eigu Hreyfiafls og Zephyr í Noregi. Samkvæmt heimasíðu Zephyr Iceland er norska fyrirtækið í eigu þriggja vatnsaflsfyrirtækja sem aftur eru í eigu norskra sveitarfélaga og fylkja. Fyrisvarsmaður Zephyr Iceland er Ketill Sigurjónsson, orkusérfræðingur.

Að lokum er það 110 MW vindorkuver í sunnanverðri Sandvíkurheiði. Langanesbyggð er skráður umsóknaraðili en hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps samþykkti á fundi sínum í desember að senda inn umsóknina fyrir hönd óstofnaðs þróunarfélags í samvinnu sveitarfélaganna og fleiri aðila. Langanesbyggð er einnig skráður umsóknaraðili sex annarra vindorkukosta.

Alls sendi Orkustofnun inn 43 nýja virkjunarkosti til verkefnisstjórnar rammaáætlunar að þessu sinni. Enn er opið fyrir að fleiri kostir bætist inn í fjórða áfanga rammaáætlunar þar sem Alþingi hefur ekki enn tekið þriðja áfanga til afgreiðslu og er ljóst að það gerist ekki á yfirstandandi þingi.

Hraun inn af Hamarsdal. Mynd: Andrés Skúlason


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.