Fjórða iðnbyltingin: Viðfangsefnin pólitísk frekar en tæknileg

Mikil þörf er á að efla menntun samhliða örum tæknibreytingum á næstu árum. Svara þarf mörgum siðferðislegum álitamálum sem fylgja nýrri tækni. Prófessor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík segir að þörf sé á kjarkmiklum pólitískum ákvörðunum.

„Tæknibyltingin hefur þjóðfélagslegar afleiðingar og þar þarf pólitíkin að koma inn,“ sagði dr. Yngvi Björnsson, prófessor í tölvunarfræði við HR sem var meðal frummælenda á málþingi Austurbrúar um hina svonefndu fjórðu iðnbyltingu á Breiðdalsvík í síðustu viku.

Með fjórðu iðnbyltingunni er vísað til margvíslegra tækniframfara sem víða eru að verða á ýmsum sviðum með bættri afkastagetu tölva, einkum gervigreind.

Þekkingin verður til hraðar en við getum lært

Tilkoma og þróun vélarafls hefur áður bylt vinnumarkaði en varað er við að breytingarnar sem fram undan eru kunni að verða hraðari en áður. Til dæmis er bent á hvernig snjallsímar hafi breytt daglegu lífi þótt aðeins séu tíu ár síðan þeir komu fyrst fram á sjónarsviðið. „Sá tími er búinn að þú vinnir í sama starfi allan þinn feril. Við höfum ekki lengur kynslóðir til að endurmennta fólk og því er símenntun nauðsynleg.“

Að undanförnu hafi tæknin aðallega tekið yfir framleiðslustörf en geta tækjanna til að læra hratt þýðir að þau taka yfir sérhæfðari störf en áður. Þeirra á meðal er Dr. Watson, krabbameinslæknir á einu öflugasta sjúkrahúsi Bandaríkjanna, vélmenni getur lesið þúsundir blaðsíðna af sérhæfðum læknatexta á dag, margfalt á við venjulegan lækni og út frá nýjustu vitneskju stungið upp á bestu meðferð. „Þekkingin verður til hraðar en við náum að læra,“ benti Yngvi á.

Hvernig skiptast verðmætin?

Yngvi benti á ýmis siðferðileg álitamál sem taka þyrfti afstöðu til, svo sem þegar sjálfkeyrandi bíll lendir í aðstæðum þar sem alvarlegt slys sé óumflýjanlegt en spurningin sé hver taki höggið. Bíllinn taki ákvörðun út frá upplýsingum sem forritari hans eða framleiðandi hafa matað hann á í upphafi. „Hver á ákveða hvað hann velur?“ spurði Yngvi.

Hann kom einnig inn á friðhelgi einkalífsins og réttindi hugbúnaðarins, hvort slökkva megi á honum þegar hann segi eitthvað sem mannverunni líkar ekki.

Yngvi benti einnig á að framleiðnin aukist með tækninni sem þýði hagnað fyrir þá sem eiga tæknina en aðrir kunni að missa vinnuna.

„Tæknivæðingin hefur þjóðfélagslegar afleiðingar og þar þarf pólitíkin að koma inn í. Það verður að taka á misskiptingu auðs. Til þessa hefur fjármagnið og vinnuaflið tekist á í jafnvægi en nú missir vinnuaflið samningsstöðu sína. Við munum skapa meiri verðmæti en hvernig skiptast þau? Þetta er fyrst og fremst pólitískt fremur en tæknilegt og við þurfum að vera kjarkmikil til að taka ákvarðanir.“

Hann hvatti fólk þó til að örvænta ekki, samhliða öllum iðnbyltingum hefðu orðið til ný störf og tækifæri. Þeim þyrfti að vera vakandi fyrir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.