Flest útköll í sögu slökkviliðsins um áramótin

Annasamasti gamlársdagur í sögu Slökkviliðs Fjarðabyggðar var nú um áramótin þegar sinueldar kviknuðu víða út frá áramótabrennum og flugeldum. Starfsmenn slökkviliðsins eru nú að fara yfir hvaða lærdóm megi draga af aðstæðunum.


Veðurfarið í vetur hefur verið harla óvanalegt á öllu landinu, lítill snjór og hlýindi. Jörð var auð á öllum stöðum innan Fjarðabyggðar á gamlársdag nema í Neskaupstað. Að auki var mikill vindur á köflum sem jók enn á eldhættu frá bálköstum og flugeldum.

„Þetta var afar annasamur sólarhringur, sem hófst með brunaútkalli í atvinnuhúsnæði laust upp úr klukkan níu að morgni gamlársdags. Klukkan 18:04 hófst svo hrina útkalla en þá kviknuðu sinueldar út frá áramótabrennu á Eskifirði. Í kjölfarið var slökkviliðið boðað út í sinuelda víða, á Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Áramótabrennur áttu hlut að máli til að byrja með en einnig og oftar voru það flugeldar og skotkökur sem kveiktu elda víða, bæði nálægt þéttbýli og eins innan þéttbýliskjarna. Í tveimur tilfellum mátti litlu muna að eldur kæmist í íbúðarhús en einnig var mikil reykmengun sem barst yfir m.a. hesthús,“ segir Guðmundur H. Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð.

Alls fór Slökkvilið Fjarðabyggðar í 15 brunaútköll frá kl. 09:00 að morgni gamlársdags og til kl. 02:00 á nýjársnótt. Öll nema eitt voru vegna sinuelda sem kviknað höfðu út frá brennum eða flugeldum í öllum byggðakjörnum Fjarðabyggðar nema Neskaupstað þar sem snjóföl var yfir. Til viðbótar þessu sinnti slökkviliðið sjúkraflutningum og m.a. þurfti að aka með sjúkling til Akureyrar, til móts við sjúkrabifreið þaðan.

„Hjá slökkviliðinu hafa aldrei hafa verið svona mörg útköll á jafnstuttum tíma, þetta gekk allt yfir á um 18 klukkustundum,“ segir Guðmundur og þeir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn sem lengst voru að sinna útköllum, stóðu allan þann tíma þannig að það var orðin löng og erfið törn.

„Að mestu eru sinueldar slökktir með sérstökum klöppum og er því mikil handavinna því oft er erfitt að nota vatn á slíka elda. Fjórir dælubílar slökkviliðsins voru í þessum útköllum.“


Mikil sina skapar hættu

Guðmundur segir að sem betur fer hafi í flestum tilfellum ekki skapast mikil hætta fyrir mannvirki sem sé þó alltaf fyrir hendi í aðstæðum sem þessum. Á nokkrum stöðum kviknuðu þó eldar inni í byggð vegna flugelda. „Það þurfti ekki mikið meira til viðbótar til þess að hætta skapaðist þar sem eldurinn kviknaði nálægt húsum og fjúkandi glóð var um allt. Bæði voru okkar menn fljótir á staðinn en björgunarsveitarmenn og íbúar voru líka duglegir að slökkva, enda allir úti og fljótir að bregðast við.“

Guðmundur segir að verið sé að fara yfir hvaða lærdóm megi draga af þessum annasama sólarhring og hvað sé hægt að gera til þess að fyrirbyggja að slíkt ástand komi upp aftur.

„Veðurfarið gerir það að verkum að engin náttúruleg vörn er til staðar. Í Fjarðabyggð er mikið af skoteldum skotið upp en þetta eru hlutir sem við getum ekki haft stjórn á. Við sjáum að mikil sina er um allt og stór svæði sem ekki eru slegin lengur. Það er eitthvað sem hægt væri að endurskoða en við erum ekki vön svona aðstæðum hér. Það er sem betur fer algengara að snjór sé yfir öllu á þessum árstíma eða jörð blaut eða frosin og því ekki mikil hætta á sinubrunum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.