Fljótsdalshérað: Minnihlutinn vill sameina tónlistarskólana og unglingadeildir grunnskóla

egilsstadir.jpgMinnihluti fræðslunefndar Fljótsdalshéraðs vill að skoðaðir verði möguleikar á að sameina tónlistarskólana í sveitarfélaginu og unglingadeildir Fellaskóla og Egilsstaðaskóla. Meirihlutinn vill skoða aðrar hagræðingarleiðir. Nefndin er þó einhuga um að hafin verið vinna við sameiningu leikskólanna Tjarnarlands og Skógarlands.

 

Á seinasta fundi nefndarinnar lagði minnihlutinn fram bókun þar sem lagt er til að nefndin skoði galla og kosti þess að sameina tónlistarkennslu í sveitarfélaginu. Þar eru í dag reknir þrír sjálfstæðir tónlistarskólar, í Fellum, Brúarási og á Egilsstöðum.

Minnihlutinn telur að með sameiningunni fáist ekki aðeins fjárhagslegur sparnaður heldur sé hægt að auka gæði og framboð kennslunnar. Með því megi ráða kennara í fullt starf sem geti einbeitt sér að tónlistarkennslunni.

Minnihlutinn lagði einnig til að kannaðir yrðu lagt yrði bæði faglegt og fjárhagslegt mat á áhrif þess að sameina unglingadeildir Fellaskóla og Egilsstaðaskóla frá og með næsta skólaári. Gegn þeirri hugmynd lagðist meirihlutinn þar sem hugmyndin um að flytja unglingastig Fellaskóla í Egilsstaðaskóla hefði í för með sér mikla breytingu á skólagöngu nemenda á viðkvæmu aldursstigi, fyrir utan að hafa neikvæð áhrif á skólastarf í skólahverfi Fellaskóla.

Meirihlutinn vill á móti skoða sameiningu skólanna í skólahverfi Fellaskóla en þar eru reknir leikskóli, tónlistarskóli og grunnskóli. Sú tillaga útilok á að sama tíma sé könnuð sameining tónlistarskóla sveitarfélagsins.

Nefndin var hins vegar einhuga um að hefja vinnu við sameiningu leikskólanna Tjarnarlands og Skógalands á Egilsstöðum frá og með næsta skólaári. Nefndin telur að sameining skólanna hafi ekki neikvæð áhrif á faglegt starf þeirra eða þjónustu.

Þá leggur nefndin til að Tónlistarskóli Austur-Héraðs verði alfarið fluttur úr núverandi húsnæði í Selási 19 í Egilsstaðaskóla næsta sumar þar sem stór hluti kennslunnar fer þegar fram.

Tillögurnar voru allar hluti af vinnu nefndarinnar fyrir fjárhagsáætlun næsta árs. Þá er útlit fyrir að bæði leikskóla – og tónlistarskólagjöld hækki um 8,6% frá og með 1. janúar 2012.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.