Steinboginn yfir Flögufoss hruninn

Steinbogi, sem prýtt hefur Flögufoss í Breiðdal undanfarin 30 ár, er fallinn. Talið er að hann hafi hrunið í leysingum í vor.


„Ég myndi ætla að þetta hafi gerst í rigningunum snemma í aprílmánuði en sjálfur vissi ég ekki af þessu fyrr en mér var sagt þetta,“ segir Hrafnkell Hannesson, hjá Náttúrufræðistofnun Íslands á Breiðdalsvík.

Fossinn og steinboginn með hafa síðustu árin vakið athygli innlendra og erlendra ferðamanna. Að fossinum er slóði frá veginum yfir Breiðdalsheiði og gangan upp að fossinum stutt og auðveld að sögn Hrafnkels, sem sjálfur er uppalinn steinsnar frá fossinum.

Hann var líka sennilega fyrstur til að veita steinboganum athygli fyrir réttum 30 árum síðan þegar hann myndaðist. Þá hætti Flöguá að renna vinstra megin við bogann og fann sér beina leið í gegn. Það gat stækkað allar götur síðan þangað til nú.

„Þetta er auðvitað miður því boginn var fallegur og setti mikinn svip á vatnsfallið. En fossinn sjálfur og allt umhverfið þarna er mjög fallegt og ég hvet fólk til að leggja leið sína þangað því þetta er auðveld ganga. Ég veit sem er að margir Austfirðingar vita lítið af þessum fallega fossi en vonandi heldur ferðafólk áfram að gera sér ferð að honum því það er þess virði.“


Steinboginn yfir Flögufossi meðan hann var og hét. Mynd Hrafnkell Hannesson.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.