Flóttabörn daga uppi hjá sveitarfélögum því úrræði Útlendingastofnunar eru sprungin

Lögfræðingur Barnaverndarstofu telur að ný útlendingalög feli í sér mikla réttarbót sem koma hingað til lands. Núverandi úrræði dugi ekki lengur. Barnaverndaryfirvöld sveitarfélaganna bera ábyrgð meðan hælisumsókn er metin.


„Það má velta fyrir sér hvort kerfið sem tekur við þeim sé nógu barnvænt,“ segir Heiða Björg Pálmadóttir, lögfræðingur Barnaverndarstofu.

Málefni tveggja hælisleitenda undir 18 ára aldri, sem komu til landsins með Norrænu í byrjun september, hafa verið í fréttum í vikunni. Þeir hafa verið á forræði félagsmálayfirvalda í Fjarðabyggð og í fréttum Stöðvar 2 lýsti yfirfélagsráðgjafi sveitarfélagsins því að hvergi hefði fundist aðstoð þótt leitað hefði verið til Rauða krossins, Útlendingastofnunar, Barnaverndarstofu eða félagsþjónustu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Á gistiheimili en ekki fósturheimili

Þeir eru vistaðir á gistiheimili á Reyðarfirði. Það er nokkuð sérstakt því íslensk börn sem eru á framfæri félagsmálayfirvalda eru hjá fósturfjölskyldum eða á meðferðarheimilum. „Samkvæmt þeim útlendingalögum sem í gildi eru er dvalarparturinn í höndum Útlendingastofnunar þar til hæli hefur veitt. Þá færist forsjáin yfir til Barnaverndarstofu,“ segir Heiða Björg.

Að þessu sinni hefur málið verið á herðum félagsmálayfirvalda í Fjarðabyggð frá því strákarnir gáfu sig fram á Breiðdalsvík fyrir rúmum tveimur mánuðum. „Ástandið er erfitt hjá Útlendingastofnun því úrræði hennar eru sprungin. Þá hafa málin stundum dagað uppi hjá sveitarfélögunum,“ segir Heiða Björg. Kostnaður við vistunina er hins vegar alltaf greiddur af ríkinu.

Þá bætir hún við að Barnaverndarstofa reyni að útvega fósturheimili áður en niðurstaða liggi fyrir um óskum um hæli.

Ísland er aðili að alþjóðasáttmálum, þar á meðal samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. „Þar eru ákvæði um vernd barna, sama hvaðan þú kemur eða hver þú ert.“

Réttarbót í nýjum lögum

Alþingi samþykkti í haust ný útlendingalög sem taka gildi um áramót. Heiða Björt telur þau fela í sér mikla réttarbót fyrir flóttabörn. Samkvæmt þeim tekur Barnaverndarstofa við umönnun barna um leið og þau hafa sótt um hæli og sannað hefur verið að þau séu undir 18 ára aldri.

„Stefnan er að fundið verði viðunandi vistunarúrræði fyrir alla sem hingað koma og sannarlega eru börn og að viðtölin verði tekin af sérfræðingum í þeirra aðstæðum í umhverfi sem þeim finnst þau örugg í. Vonandi tryggja nýja lögin þetta betur.“

Yfirvöld eystra leggja sig fram

Í fyrra óskuðu 10 börn eftir hæli hérlendis en þau eru þegar orðin 14 á þessu ári. Ekki er öllum veitt hæli en Heiða Björg bendir á að samkvæmt lögum megi ekki senda neinn til baka þrátt fyrir synjun nema við viðkomandi taki gott barnaverndarkerfi eða forsjáraðili sem barnaverndaryfirvöld viðkomandi lands hafi vottað. Ef hæli er veitt tekur barnaverndarnefnd viðkomandi sveitarfélags við barninu eins og öðrum börnum sem njóta forsjár.

En hvað sem verður eru drengirnir tveir undir verndarvæng félagsmálayfirvalda í Fjarðabyggð í dag. „Samkvæmt núgildandi lögum er það þannig að barnaverndarnefnd gætir að velferð barnanna meðan hælisumsókn þeirra er í ferli og að þau fái þá þjónustu eða aðstoð sem á þarf að halda. Það felst í að hafa einhvern að tala við og afþreyingu. Ég veit ekki betur en barnaverndarnefndin eystra hafi lagt sig fram um það.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.