Flugumaður í mótmælum á Austurlandi: Sér eftir svikunum
Breski lögreglumaðurinn Mark Kennedy, sem í sjö ár hafði það að starfa að smygla sér inn í hópa mótmælenda, var meðal mótmælenda á Kárahnjúkum sumarið 2005. Málið hefur vakið upp reiði í Bretlandi þar sem menn eru argir út í aðferðir lögreglunnar. Kennedy segist sjá eftir gerðum sínum.
Kennedy tók í mótmælum gegn stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi sumarið 2005. Mótmælendur voru þá inni við Kárahnjúka áður en búðir þeirra voru rýmdar. Eftir það færðu þeir sig niður að Vaði í Skriðdal.
Breskir fjölmiðlar segja Kennedy hafa notað falskt vegabréf, með nafninu Mike Stone, til að ferðast með umhverfismótmælendum á milli landa, þeirra á meðal Íslands. Hingað kom hann eftir mótmæli á fundi G8 ríkjanna í Bretlandi um sumarið.
Stutt er síðan Kennedy svipti af sér hulunni. Í símtali, sem breska ríkisútvarpið BBC spilaði brot úr í gærkvöldi, segist hann sjá eftir svikum sínum við mótmælendur. „Ég hata mig svo heitt því ég sveik svo marga.“
Kennedy bætir því einnig við að hann sé „langt í frá eini“ lögreglumaðurinn sem hafi siglt undir fölsku flaggi í hópi mótmælenda.
Fyrrum yfirmaður í bresku lögreglunni staðfesti í samtali við BBC að ekki væri óalgengt að lögreglan notaðist við flugumenn. Til þess þurfi mikið hugrekki og óalgengt sé að þeir skipti um lið eins og Kennedy hefur gert.
Lögfræðingur mótmælendahóps sem Kennedy var í samskiptum við segir afhjúpun Kennedys vekja „alvarlegar spurningar“ um framkomu lögreglunnar gagnvart „friðsamlegum mótmælendum.“
Þýskur þingmaður hefur farið fram á svör frá þarlendum yfirvöldum um aðgerðir Kennedys í landinu og upplýsingaöflun hans um þýska borgara.
Kennedy yfirgaf Bretland eftir að fyrrum vinir hans flettu ofan af honum. Til hans hefur ekki spurst í tvær vikur.