Flugvél Play á leið frá Kanarí lenti á Egilsstöðum í nótt

Farþegar á leið til Íslands frá Kanaríeyjum hafa beðið á Egilsstöðum síðan í nótt þar sem flugvél þeirra lenti þar því Keflavíkurvöllur lokaðist nótt. Stefnt er að því að vélin fari suður í kvöld.

Samkvæmt ferli vélarinnar á Flightradar var vélin komin til Keflavíkur um klukkan 1:50 í nótt. Hún sólaði yfir Keflavík í um einn og hálfan tíma áður en haldið var austur og lent þar skömmu eftir klukkan fjögur. Hún fór upphaflega frá Las Palmas klukkan 20:40 í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Austurfréttar voru á sjöunda tug farþega í vélinni.

Birgir Olgeirsson, talsmaður Play, segir að ofsaveður hafi gert í Keflavík akkúrat þegar vélin kom og að lokum hafi niðurstaðan verið sú að fljúga austur. Þar hafi farþegum verið komið fyrir á hóteli. Hann segist aðspurður ekki vita annað en það hafi gengið vel.

Þegar komið var austur hafði áhöfn vélarinnar staðið vaktina eins lengi og leyfilegt er. Til stóð að senda áhöfn austur með innanlandsflugi í morgun en því var aflýst vegna veðurs. Ný áhöfn er á leið austur með áætlunarflugi sem á að lenda undir klukkan fimm.

Hinn kosturinn hefði verið að láta áhöfnina sem kom að utan klára lágmarkshvíldartíma og fljúga svo. Alltént gera allar áætlanir Play ráð fyrir að flugvélinni verði flogið til Keflavíkur í kvöld.

Mynd: Benedikt V. Warén

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar