Icelandair flýtir kvöldflugi til Egilsstaða

Icelandair hefur ákveðið að flýta kvöldflugi sínu til Egilsstaða vegna veðurviðvarana í dag. Öllu öðru innanlandsflugi hefur verið aflýst.

Flugi til Egilsstaða var aflýst í morgun vegna veðurs. Aftur hvessir undir kvöldmat og þess vegna var ákveðið að flýta kvöldfluginu. Það fer úr Reykjavík klukkan 16:00 í stað 17:55 áður. Að sama skapi fer vélin í loftið til baka klukkan 17:30.

Á vef Icelandair má lesa að reiknað er með að flugið austur taki 38 mínútur, sem er í allra hraðasta lagi. Hvass suðvestanvindur við landið veitir henni meðbyr austur en viðbúið er að hann tefji flugið suður, líkt og reyndin hefur verið með millilandaflug í dag. Það er enda áætlað 65 mínútur.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair næst með þessari vél að bjóða öllum sem áttu bókað far í morgun og vildu enn fljúga austur sæti. Samkvæmt áætlun er ein vél til Egilsstaða í fyrramálið og er útlit fyrir flug þá gott.

Á morgun hefur verið bætt við flugvél til Akureyrar en fjórum vélum þangað var aflýst í dag. Þá var tveimur vélum til Ísafjarðar aflýst. Enn er til skoðunar hvaða möguleikar og þörf séu til að hjálpa farþegum á áfangastað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.